Lögfræðingur Ásu Guðbjargar Ellerup, Robert Macedonio, kveður rannsakendur og tæknideildarfólk lögreglunnar á Long Beach hafa umturnað heimili þeirra Rex Heuermanns, raðmorðingjans grunaða, við leit og rannsókn á heimili þeirra í kjölfar handtöku Heuermanns fyrir þremur vikum.
Ásu, sem sótt hefur um skilnað við eiginmann sinn, hefur loks verið leyft að snúa aftur á heimili sitt og mun þar hafa komið að „hreinni eyðileggingu heimilis fjölskyldunnar þar sem hún bjó og ól börn þeirra upp,“ sagði Macedonio við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN.
„Allt var á rúi og stúi, skúffur höfðu verið tæmdar. Baðkarið, sem er úr vínyl, hafði verið skorið í sundur, gólfefni rifið upp og sófar og dýnur verið fjarlægð,“ sagði lögfræðingurinn enn fremur og bætti því við að fjölskyldan gæti með naumindum farið um húsið fyrir óreiðunni.
„Við náðum í annan stól niður í kjallara svo við sonur minn gætum sest og rætt málin. Hann hefur engan skilning á því sem hefur gerst og sem móðir á ég engin svör handa honum,“ sagði Ása við New York Post. „En ég sagði honum að við værum saman og það væri allt sem nú skipti máli, „að ég og þú sitjum hérna saman og við munum komast í gegnum þetta“, börnin mín gráta sig í svefn,“ sagði Ása.
Macedonio sagði fjölskylduna enn vera að henda reiður á því hvaða munir hefðu verið fjarlægðir af heimilinu við rannsóknina en Joey Jackson, lögfræðispekúlant CNN, sagði að við rannsókn svo alvarlegra afbrota væri ekki óalgengt að heimili væru skilin eftir í rúst við leit að sönnunargögnum.
„Þetta er ekki hefðbundin rannsókn, það er ekki daglegt brauð að eiga í höggi við raðmorðingja,“ sagði Jackson og bætti því við að lögregla leitaði gagna sem mjög lítið færi fyrir og nefndi sem dæmi hár, blóð og hvers konar trefjar sem gætu tengst hinum myrtu. Auk þeirra drápa sem Heuermann hefur þegar sætt ákæru fyrir sagði Jackson lögreglu leita gagna sem tengt gætu hann við fleiri mál.
Meðal þess sem fannst við húsleitina voru á þriðja hundrað skotvopn sem geymd voru í hvelfingu sem lokað var með stálhurð. Einnig notuðu rannsakendurnir gröfu til að leita neðar foldu í garði Heuermann-hjónanna og leituðu í húsum í eigu þeirra í Suður-Karólínu og Nevada.