Hundruð skáta sem staddir eru á alþjóðlegu skátamóti í Suður-Kóreu hafa þurft að leita sér aðhlynningar sökum örmögnunar, en hitabylgja sem valdið hefur fjölda dauðsfalla, gengur nú yfir Kóreuskagann. AFP greinir frá.
Um 43.000 skátar víðsvegar að úr heiminum taka nú þátt í alþjóðlega skátamótinu World Scout Jamboree, sem er stærsta skátamót í heimi. Í ár er mótið haldið í Norður-Jeolla-héraði Suður-Kóreu, en þar er hitabylgjuviðvörum í gildi og hefur hiti síðustu daga mælst um 35 gráður á Celsius.
Að sögn skipuleggjanda voru um það bil 400 tilfelli örmögnunar fyrstu nóttina á tjaldstæði mótsins og var fólk sent til aðhlynningar á bráðabirgðasjúkrahúsi sem sett hefur verið upp á svæðinu.
Fram kemur í fjölmiðlum að skátar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Belgíu, Bangladess, Kólumbíu, Póllandi og Svíþjóð hafi fundið fyrir áhrifum örmögnunar, en þess ber að geta að um 140 íslenskir skátar eru nú staddir á mótinu.
Í kjölfar hitans sem geisar á svæðinu um þessar mundir hefur ríkisstjórn Suður-Kóreu gefið út hitaviðvörun, en henni hefur verið tilkynnt um 21 hitatengd dauðsföll það sem af er þessu ári.