Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, mætir fyrir dóm í Washington D.C. síðar í dag. Segir hann það vera mikinn heiður þar sem hann hafi verið handtekinn fyrir stuðningsmenn sína.
Þetta skrifaði Trump á samfélagsmiðli sínum, Truth Social.
„Ég er nú á leið til Washington D.C. til þess að vera handtekinn fyrir að hafa staðið gegn spilltum, hagræddum og stolnum kosningum. Það er mikill heiður af því að ég er handtekinn fyrir ykkur. Gerum Bandaríkin frábær aftur!!!!“
Bætti hann í og skrifaði:
„Ég þarf eina ákæru í viðbót til að tryggja að ég verði kosinn.“
Þetta er í þriðja sinn sem Trump hefur verið ákærður á stuttum tíma. Snýst nýjasta ákæran um það að hann hafi lagt á ráðin um að hnekkja ósigri sínum í forsetakosningunum árið 2020.