Jakob Ellemann-Jensen snýr aftur úr kulnun

Jakob Ellemann-Jensen er snúinn aftur úr hálfs árs kulnun.
Jakob Ellemann-Jensen er snúinn aftur úr hálfs árs kulnun. Skjáskot/Danmarks Radio

Varnarmálaráðherra Danmerkur og formaður hægriflokksins Venstre, Jakob Ellemann-Jensen, er snúinn aftur úr hálfs árs veikindaleyfi. Ellemann-Jensen virðist hafa lent í því sem best verður lýst sem kulnun.

Hann hefur nú snúið aftur á svið stjórnmálanna og veitt danska ríkissjónvarpinu DR einkaviðtal.

„Gæti ekki einu sinni borið út blöð“

„Ég óttaðist að ég gæti ekki snúið aftur í vinnuna mína. Ekki bara það, ég óttaðist að ég gæti ekki sinnt neinni vinnu. Ég hélt ég gæti ekki einu sinni borið út blöð.“

Hann segir fyrstu þrjár vikur kulnunarinnar hafa verið verstar. „Mér fór alltaf aftur og niðurbrotið var mjög alvarlegt. Á endanum sat ég bara á gólfinu og starði á vegginn og gat mig hvergi hreyft.“

Hann segir vinnu sína fram að kulnun hafa öðru fremur snúist um að uppfylla skyldur sínar, en hún hafi ekki verið unnin af neinni sérstakri löngun eða gleði. Margt hefur þó breyst á því hálfa ári sem hann hefur verið fjarverandi og fyllist hann spenningi og gleði þegar hann ræðir um stjórnmál nú, að eigin sögn.

„Ég er í stjórnmálum af því að ég á enn eftir ókláruð mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert