Ók bifreið á hóp fólks og stakk svo níu

Neðanjarðarlestarstöðin Seohyeon.
Neðanjarðarlestarstöðin Seohyeon. Ljósmynd/Wikipedia.org

Einn er látinn og 14 særðir eftir að karlmaður ók bifreið á hóp fólks nærri höfuðborginni Seoul í Suður-Kóreu og hóf síðan að stinga fólk. Maðurinn er talinn vera á þrítugsaldri og var handtekinn á vettvangi, en óljóst er hvað honum gekk til.

Ók hann bifreið sinni á fjóra einstaklinga við verslunarmiðstöð nærri neðanjarðarlestarstöðinni Seohyeon í Bundang, um 20 kílómetra suðaustur af Seoul.

Því næst steig hann út úr bifreiðinni og hóf að stinga fólk inni í verslunarmiðstöðinni. Stakk hann að minnsta kosti níu manns og eru fimm þeirra þungt haldnir að sögn suðurkóresku lögreglunnar.

Myndskeið af árásarmanninum í dreifingu

Fjölmiðlar í Suður-Kóreu kalla athæfið ódæði og lögregluyfirvöld hafa sagt árásina ómannúðlega. 

Tvær vikur eru síðan stunguárás varð í Seoul þar sem einn lést og þrír særðust. Stunguárásir hafa verið taldar sjaldgæfar í Suður-Kóreu fram að þessu. 

Myndskeiðum hefur verið dreift á samfélagsmiðlum þar sem maðurinn sést á hlaupum í verslunarmiðstöðinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert