Öryggisgæsla aukin í Washington

Trump hefur sagt málið sanna spillinguna undir forsetatíð Joe Biden …
Trump hefur sagt málið sanna spillinguna undir forsetatíð Joe Biden en forsetinn fyrrverandi stendur nú þegar frammi fyrir tveimur sakamálum í aðdraganda kosningabaráttu sinnar á næsta ári. AFP

Öryggisgæsla í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, hefur verið aukin þar sem Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, mun mæta fyrir dóm vegna ákæru um að hann hafi lagt á ráðin um að hnekkja ósigri sínum í forsetakosningunum árið 2020.

Trump hefur sagt málið sanna spillinguna undir forsetatíð Joe Biden en forsetinn fyrrverandi stendur nú þegar frammi fyrir tveimur sakamálum í aðdraganda kosningabaráttu sinnar á næsta ári. BBC greinir frá.

Trump nýt­ur um­tals­verðs fylg­is inn­an Re­públi­kana­flokks­ins sem fram­bjóðandi í næstu for­seta­kosn­ing­um og breikk­ar gjá­in ört milli hans og helsta keppi­naut­ar­ins, Ron DeS­ant­is, rík­is­stjóra í Flórída.

Tálmar og aukin vernd dómara

Í Washington hafa málmtálmar verið settir upp fyrir utan alríkisdómshúsið og álíka tálmar í kringum þinghúsið þar sem stuðningsmenn Trump gerðu uppþot í janúar 2021 vegna niðurstöðu kosninganna og réðust inn í þinghúsið.

Vernd dómara sem hafa að gera með málið hefur einnig verið aukin.

Verkamenn setja upp tálma í Washington.
Verkamenn setja upp tálma í Washington. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert