Segjast hafa skotið niður 7 dróna nálægt Moskvu

Mynd af byggingu í Moskvu sem varð fyrir drónaárás síðustu …
Mynd af byggingu í Moskvu sem varð fyrir drónaárás síðustu helgi. AFP/Alexander Nemenov

Sjö úkraínskir ​​drónar voru skotnir niður í nótt í Kaluga héraðinu, suðvestur af Moskvu, í Rússlandi að sögn rússneskra embættismanna.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði í nótt að Rússland hefði skotið niður sex dróna en Vladislav Shapsha, landstjóri Kaluga-héraðs, sagði síðar að loftvarnarkerfið hefði greint og fellt annan dróna snemma í morgun.

„Í gærkvöldi var tilraun stjórnvalda í Kænugarði til að gera hryðjuverkaárás með ómönnuðum loftförum stöðvuð yfir yfirráðasvæði Kaluga-héraðs,“ sagði ráðuneytið í yfirlýsingu á Telegram.

Shapsha sagði að drónaárásin hefði ekki haft nein áhrif á fólk eða innviði. Stjórnvöld í Úkraínu hafa ekki tjáð sig um meintu árásina.

Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, varaði Rússa við því á sunnudag að fyrr en um síðir kæmi stríðið til Rúss­lands. Sú yfirlýsing kom í kjöl­far þess að Rússar sökuðu Úkraínumenn um dróna­árás í Moskvu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert