Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur staðfest að tveir menn sem þjóna í sjóher Bandaríkjanna hafi verið handteknir fyrir njósnir fyrir Kína.
Mennirnir tveir eru grunaðir um að hafa selt stjórnvöldum í Peking leiðbeiningar að bandarískum herskipum og upplýsingar um hvaða vopn þau hafi um borð.
Auk þess eru þeir grunaðir um að hafa selt nákvæmar teikningar af ratsjárkerfi sjóhersins og gefið upplýsingar um stórfelldar fyrirhugaðar æfingar hersins.
Dómsmálaráðuneytið hefur nafngreint mennina. Annar þeirra heitir Jinchao Wei, sem er skráður á herskipið USS Essex, sem á heimahöfn í San Diego. Er hann grunaður um að hafa afhent Kínverjum fjölda skjala, ljósmynda og myndbanda sem gefa glögga mynd af herskipum og stýrikerfum þeirra.
Á hinn 22 ára gamli sjóliði að hafa þegið þúsundir dala fyrir þjónustu sína. Hans getur beðið ævilangt fangelsi ef hann verður fundinn sekur.
Sömuleiðis var Wenheng Zhao handtekinn. Hann er 26 ára og er gefið að sök að hafa njósnað fyrir Kínverja í nærri tvö ár. Hann starfar við flotastöðuna í Ventura-sýslu, sem er norður af Los Angeles. Á hann að hafa þegið sem nemur tæpum tveimur milljónum króna fyrir að hafa veitt Kínverjum upplýsingar um stórfelldar heræfingar bandaríska flotans á Kyrrahafi.
Suzanne Turner, sem vinnur að málinu fyrir hönd alríkislögreglunnar FBI, segir í yfirlýsingu:
„Handtökurnar minna okkur á stöðugar og áleitnar tilraunir Alþýðulýðveldisins Kína til þess að grafa undan lýðræði okkar og þeirra sem verja það.“