Afstýrðu árás á rússneska hafnarborg

Rússnesk herskip við höfnina í Nóvorossísk.
Rússnesk herskip við höfnina í Nóvorossísk. AFP

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir í tilkynningu að rússnesk herskip hafi grandað tveimur fjarstýrðum og vopnuðum sjóförum Úkraínumanna sem gerðu árás á rússnesku hafnarborgina Nóvorossísk við Svartahafið í nótt.

Er höfnin þar þýðingarmikil útflutningshöfn en myndskeið sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum sýna háværar sprengingar í nágrenni við höfn borgarinnar. Var höfninni lokað tímabundið fyrir allri skipaumferð í kjölfar árásarinnar að sögn fyrirtækisins Caspian Pipeline Consortium sem annast lestun olíutankskipa.

Eftir því sem breska ríkisútvarpið BBC kemst næst hafa Úkraínumenn gert að minnsta kosti tíu árásir með sjávardrónum á borð við þá sem voru á ferð í nótt og hafa skotmörkin iðulega verið rússnesk herskip auk flotastöðvar Rússa í borginni Sevastópol.

Eyðilögðu 60.000 tonn af korni

Heimildarmenn úr röðum varnarmálaráðuneytis Úkraínu tjá bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN enn fremur að sjávardrónum hafi einnig verið beitt í árás á Kerch-brúna á Krímskaga í júlí.

Nóvorossísk er ein stærsta hafnarborgin við Svartahafið og staðfesta viðbragðsaðilar þar að sprengingar hafi heyrst í nótt eftir því sem rússneskir fjölmiðlar greina frá. Úkraínsk yfirvöld hafa hins vegar ekki tjáð sig um árásina.

Væringar á Svartahafinu og við strönd þess hafa færst í aukana síðustu vikur í kjölfar þess er Rússar riftu samningi sem gerði Úkraínumönnum kleift að sinna kornútflutningi yfir hafið. Fyrr í vikunni réðust Rússar á úkraínsku hafnarborgirnar Ódessu og Tsjornómorsk og segja Rússar 60.000 tonn af korni hafa farið forgörðum í þeim árásum.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka