Dularfull SMS hrella Dani og Svía

Smáskilaboðin þykja ógnvekjandi.
Smáskilaboðin þykja ógnvekjandi. AFP

Smáskilaboð frá nafnlausa aðilanum „Alert“ hafa ratað í síma margra Dana í dag. Úr skilaboðunum má skilja ákall til allra ungra múslima um að hefna sín á þeim sem standa að baki brennum á helgibókinni Kóraninum undanfarna daga.

Sambærileg skilaboð hafa líka verið send í síma í Svíþjóð. Þar er sagt: „Brennur á hinum helga Kóran sýnir svik og hræsni Svíþjóðar og annarra vestrænna ríkja.“

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur staðfest við DR að þau hafi fengið margar tilkynningar um dularfullu smáskilaboðin. Annars varðist lögreglan allra frekari frétta og vildi ekki segja hversu mörg slík skilaboð hefðu verið send. Það er því enn ekki vitað hver sendandinn er.

Viðbragð við Kóranbrennum

Heimildir eru fyrir því að sænska öryggislögreglan, Säpo, hafi málið til skoðunar hvað viðvíkur skilaboðum í sænska síma, en gefa ekkert upp um rannsókn sína.

Skilaboð þessi koma í kjölfar þess að Kóraninn hefur verið brenndur víða bæði í Svíþjóð og Danmörku á undanförnum vikum.

Danska ríkisstjórnin hefur í kjölfarið komið fram með tillögu um að banna skuli brennur á Kóraninum og öðrum helgibókum fyrir framan sendiráð erlendra ríkja. Hefur sú hugmynd verið gagnrýnd af mörgum stjórnarandstöðuflokkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert