Navalní dæmdur í fangelsi í 19 ár til viðbótar

Navalní hefur verið dæmdur til viðbótar í 19 ára fangelsisvist.
Navalní hefur verið dæmdur til viðbótar í 19 ára fangelsisvist. AFP/Alexander Nemenov

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur verið fundinn sekur af rússneskum dómstólum um að hafa stofnað öfga­sam­tök og fjár­magnað öfga­stefnu. Refsingin eru 19 ár til viðbótar í fangelsi. Navalní hefur ávallt neitað sök.

Navalní er nú þegar í fangelsi eftir að hafa verið dæmdur í níu ára fangelsisvist árið 2021. Hann mun því þurfa að dúsa í fangelsi næstu 26 ár.

Rúss­nesk­ur dóm­stóll fyr­ir­skipaði að rétt­ar­höldin yfir Navalní færu fram fyr­ir lukt­um dyr­um. Áður en dómur var kveðinn hafði Navalní gefið það út á samfélagsmiðlum að hann gerði ráð fyrir því að fá „Stalínískan“ fangelsisdóm til þess að hræða aðra mögulega andstæðinga rússneskra stjórnvalda.

Fordæmt af alþjóðasamfélaginu

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur þegar fordæmt dóminn sem og Evrópusambandið.

„Þessi dómur kemur í kjölfar enn eins sýndarréttarhaldanna gegn Alexei Navalní og er óásættanlegur. Þessi geðþóttadómur er svarið gegn hugrekki hans fyrir að þora að gagnrýna yfirvöld í Kremlín,“ sagði Charles Michel, formaður Evrópuráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert