Umdeilda áhrifavaldinum Andrew Tate hefur verið sleppt úr stofufangelsi í Rúmeníu en hann hefur verið ákærður fyrir mansal og nauðgun. Bróður hans Tristan Tate var einnig sleppt.
Þrátt fyrir að bræðurnir séu ekki lengur í stofufangelsi eru þeir ekki frjálsir ferða sinna en þeir mega ferðast um Búkarest og svæðið í kringum heimili sitt skammt frá borginni.
Þar að auki kemur fram að þeim sé bannað að hafa samband við aðra sakborninga í málinu, vitni og meint fórnarlömb sín. Þá þurfi þeir einnig að svara kalli lögreglu þegar það berst ásamt fleiru en brjóti þeir reglurnar verði þeir aftur settir í stofufangelsi.
Bræðurnir voru handteknir í Rúmeníu þann 30. desember og hafa síðan neitað sök í málinu.
Andrew Tate er vel þekktur á samfélagsmiðlum og hefur verið bannaður á þeim mörgum en hann hefur gjarnan deilt skoðunum sem einkennast af kvenhatri og eitraðri karlmennsku.