Olíuflutningaskipið sagt mjög laskað

Fjarstýrðu fleyi var stýrt á olíuflutningaskipið með þessum afleiðingum.
Fjarstýrðu fleyi var stýrt á olíuflutningaskipið með þessum afleiðingum. Skjáskot/Úkraínuher

Svo virðist sem að drónaárás Úkraínumanna í gærkvöldi hafi ekki beinst að Kertsj-brúnni sjálfri, heldur að rússneska olíuflutningaskipinu SIG.

Úkraínumenn birtu í morgun myndbönd af árásinni á skipið, en að auki hafa rússneskir herbloggarar birt myndir af skipinu sem sýna skaðann eftir árásina.

Fullt af olíu

Olli árásin á skipið háværum sprengingum, en tvennum sögum fór af því hvort það var með olíu þegar árásin varð. Leiddi árásin til þess að umferð um Kertsj-brúna, sem er í um 27 kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem ráðist var á skipið, var stöðvuð tímabundið og var því uppi hávær orðrómur í gærkvöldi um að brúin sjálf hefði orðið fyrir skaða í árásinni.

Var umferð hins vegar aftur leyfð yfir brúna snemma í morgun.

Rússnesk yfirvöld sögðu að olíuflutningaskipið hefði fengið á sig gat í vélarrými sínu við sjólínu, en að það væri enn á floti. Voru tveir dráttarbátar að draga það til hafnar að sögn Rússa.

Nýtt til hergagnaflutninga

SIG var á svörtum lista hjá Bandaríkjastjórn, en Rússar hafa nýtt það mjög til að flytja olíu til Sýrlands í trássi við refsiaðgerðir á sýrlensk stjórnvöld.

Mun skipið hafa siglt í næstum hverjum einasta mánuði til Sýrlands með olíu, og ávallt slökkt á staðsetningarbúnaði sínum í nágrenni við Kýpur.

Lýsa hafnirnar stríðssvæði

Úkraínsk stjórnvöld sendu svo frá sér formlega viðvörun til sæfarenda á Svartahafi um að hafsvæðið í og við rússnesku hafnarborgirnar Anapa, Novorossísk, Gelendzhík, Túapse, Sotsjí og Taman, teldist nú stríðssvæði.

Er hótunin sögð svar við hótunum Rússa í síðasta mánuði um að öll flutningaskip sem ættu leið til Úkraínu myndu teljast herflutningaskip, en hún á einnig að undirstrika það að Úkraínumenn telja sig nú geta valdið Svartahafsflota Rússa miklum skaða með sjávardrónum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert