Hart er unnið að því í Slóveníu í dag að hreinsa til og lagfæra eftir að steypiregn og mikil flóð skullu á ríkinu fyrir botni Adríahafs.
Yfirvöld segja náttúruhamfarirnar þær verstu sem dunið hafa á landinu frá því það öðlaðist sjálfstæði árið 1991.
Nú þegar regninu hefur slotað að einhverju leyti gefst tími til að fara yfir skaðann sem því hefur fylgt.
„Þetta eru verstu náttúruhamfarir í sögu Slóveníu. Þær hafa haft áhrif á tvo þriðju landsins,“ sagði slóvenski forsætisráðherrann Robert Golob eftir fund þjóðaröryggisráðs landsins í dag, og átti þar við rúmlega þrjátíu ára sögu ríkisins.
Talið er að kosta muni meira en hálfan milljarð evra að lagfæra það sem veðrið setti úr skorðum, eða sem nemur meira en 73 milljörðum króna.
Að minnsta kosti þrír eru látnir, þar af tveir hollenskir ríkisborgarar og einn Slóveni.