Búist er við ofsaregni í hluta Noregs á morgun og þriðjudag. Sums staðar verður regnið það mesta sem sést hefur í aldarfjórðung. Talið er líklegt að einhverjar aurskriður falli.
Norska veðurstofan hefur gefið út rauða veðurviðvörun af þessum sökum og hefur fylkisstjórinn í Innlandet skipað sérstakan hóp til að skipuleggja aðgerðir vegna veðursins.
„Þetta eru mjög alvarlegar aðstæður,“ segir vatnafræðingurinn Trine Heggdal í samtali við norska ríkisútvarpið um óveðrið sem er í aðsigi.
Hún bendir á að það sem sé markvert núna sé stærð þess svæðis sem er undir.
Viðvörunin nær til Austur-Noregs norður af Ósló, auk austustu hluta Sognsæs og Firðafylkis, Mæris og Raumsdals.
Greint var frá því í gær að þrír hefðu látist vegna úrhellis í Slóveníu.
Á veðurvefnum Bliku segir að bylgja með því raka lofti rísi nú til norðurs og norðvesturs. Þess vegna sé miklum rigningum spáð næstu tvo sólarhringana í Póllandi og Svíþjóð. Og ekki síst í Austur-Noregi.