Viðbragðsaðilar hafa náð tökum á þremur skógareldum sem teygðu sig yfir 1.000 hektara svæði á Spáni um helgina. Enn er þó í gildi viðvörunarstig vegna mikils hita.
Einn eldurinn var tíu kílómetra frá strandborginni Cadiz, annar var skammt frá borginni Huelva í suðvesturhluta Spánar og þriðji eldurinn var í Katalóníu, nærri landamærum við Frakkland.
Í Andalúsíu hefur appelsínugulri viðvörun verið lýst yfir vegna hita, en þar er búist við því að hiti fari upp í 43 gráður í dag.
Um er að ræða þriðju hitabylgjuna sem riðið hefur yfir Spán í sumar og búist er við að áhrifa hennar gæti fram á fimmtudag.