41 flóttamanns saknað

Um 40 manns er saknað. Mynd úr safni.
Um 40 manns er saknað. Mynd úr safni. AFP

41 flóttamanns er saknað, þar á meðal þriggja barna, eftir að bátur með flóttafólki fórst í Miðjarðarhafinu nærri ítölsku eyjunni Lampedusa. Fjórir komust lífs af og fengu þar aðhlynningu.

Hópurinn lagði af stað frá Sfax í Túnis aðfararnótt fimmtudagsins samkvæmt yfirlýsingu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Þrír karlmenn og ein kona lifðu slysið af og tjáðu björgunarfólki að 45 manns hafi verið um borð í bátnum en þau koma upprunalega frá Gíneu og Fílabeinsströndinni. Talið er að einungis 15 manns hafi verið í björgunarvestum. 

Yfir 1.800 manns hafa týnt lífi á árinu á flótta frá Norður-Afríku til Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert