Neyðarástand hefur skapast við orkuverið í Braskereidfoss í Våler í Noregi. Våler er í Innlandet-fylki þar sem rignt hefur hvað mest þá daga sem úrkomuveðrið Hans hefur haft viðdvöl í Noregi. Braskereidfoss-verið, sem virkjar ána Glommu, er óvirkt, vatn lak inn í verið í veðrinu og olli tjóni sem gerir það að verkum að lúgur, eða flóðgáttir, á stíflunni eru óvirkar.
Lúgur þessar hleypa vatni í gegnum stífluna þegar virkjað er en opnast nú ekki vegna bilunarinnar og á meðan hækkar hratt í Glommu ofan við stífluna.
Að sögn Merete Hjertø, vettvangsstjóra lögreglunnar á staðnum, óttast lögregla og sérfræðingar orkuversins flóðbylgju eftir því sem Glomma vex og íhuga nú að sprengja stífluna, eða að minnsta kosti eina eða fleiri lúgur, með aðkomu hersins.
Hefur tæplega 20 íbúum á hættusvæði vegna flóðbylgju verið gert að rýma heimili sín en á meðan ráða her, lögregla og sprengjusveit lögreglu ráðum sínum. „Þegar vatnsmagnið verður eins mikið og við sjáum fyrir okkur getur í versta falli komið til þess að flóðbylgja berist niður ána. Þess vegna gerum við varúðarráðstafanir og rýmum svo enginn verði fyrir flóðbylgju ef mikið vatnsmagn berst niður eftir ánni,“ segir Hjertø við norska ríkisútvarpið NRK.
Áin flæðir nú þegar yfir stífluna og inn í orkuverið sem er „drukknað“ eins og þeir kalla það í bransanum. „Verið er algjörlega óvirkt,“ segir Vegard Kjos Andersen orkuversstjóri og kveðst ekki viss um hvað hafi gerst. „Við erum með lúgur til að hleypa vatni í gegnum stífluna og tvær túrbínur sem framleiða rafmagn. Nú er komið vatn inn í rýmið sem þær eru í og við höfum enga möguleika á að stjórna lúgunum,“ útskýrir Andersen.
Aðstoðarlögreglustjóri Innlandet hefur bannað alla flugumferð í nágrenni við orkuverið, þar á meðal drónaflug af öryggisástæðum og vegna vinnu lögreglu og annarra viðbragðsaðila á svæðinu. Björgunar- og sjúkraflug nýtur þó undanþágu og eins flugför lögreglu.
Verði orkuverið óstarfhæft eiga lúgur stíflunnar að opnast sjálfkrafa en á því varð misbrestur nú ef einhverjum ástæðum. Rafmagn er farið af 274 húsum á svæðinu þótt óvíst sé að það tengist biluninni í orkuverinu beinlínis.