Herforingjastjórnin í Níger ásakar Frakka, fyrrverandi nýlenduherra sína, um að hafa „frelsað handsamaða hryðjuveramenn“ og á þar við um íslamista. Auk þess segir stjórnin að Frakkar hafi brotið á nígerskri lofthelgi. Frakkar þvertaka fyrir ásakanirnar.
Herforingjastjórnin tilkynnti á sunnudag að hún hefði lokað lofthelgi landsins. Varaði hún við því að öllum tilraunum til að fara inn í lofthelgina verði mætt samstundis og af hörku.
Stjórnin ásakar nú Frakka um að leyfa herflugvél að fljúga frá Tsjad yfir Níger, og þar með brjóta lofthelgi landsins.
Flugvélin „rauf viljandi samband við flugumferðarstjóra þegar hún flaug inn í okkar lofthelgi“ frá 6:39 til 11:15 að morgni, sagði Amadou Abdramane ofursti í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar.
Herforingjastjórnin vill meina að frönsk stjórnvöld hafi frelsað hóp íslamista sem síðan reyndu að gera árás á nígerska hermenn nálægt landamærum Malí, Níger og Búrkína Fasó.
„Grafalvarlegir atburðir eru að eiga sér stað í Níger vegna hegðunar Frakka og samsærismanna þeirra,“ segir í tilkynningu frá herforingjastjórninni. Þar kemur einnig fram að hermenn hafi orðið fyrir árás íslamista fyrr í dag. Hins vegar kemur hvergi fram í tilkynningunni hvernig það tengist íslamistunum sem Frakkar eru meintir hafa látið ganga lausum hala.
„Í augnablikinu er tala látinna enn ekki vituð,“ segir í tilkynningunni.
Frönsk stjórnvöld segja hins vegar að ásakanir Nígermanna skjóti skökku við. Heimildarmaður úr ríkissjórn Frakka segir við AFP-fréttaveituna að flugið sem hér um ræðir hafi verið heimilað af hernaðaryfirvöldum þjóðarinnar og framkvæmt í samvinnu með þeim.
Þar að auki séu ásakanir herstjórnarinnar á hendur Frakka um að hafa leyft íslamistum að ganga lausum hala í Níger ekki heldur réttar. „Enginn hryðjuverkamaður hefur verið frelsaður af frönskum hermönnum.“
Tvær vikur eru liðnar frá því að Mohamed Bazoum, kjörinn forseti Níger og bandamaður vesturveldanna, var tekinn í gíslingu af lífvarðasveitum sínum. Herforingjastjórnin rændi völdum í landinu og Omar Tchiani hershöfðingi skipaði sig nýjan leiðtoga landsins.
Í síðustu viku krafðist efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja þess að Bazoum tæki aftur við sem forseti fyrir sunnudaginn 6. ágúst, annars myndi bandalagið gera allt til að endurreisa stjórnskipulegt skipulag.
En herforingjastjórnin hefur enn ekki afsalað sér völdum. Utanríkisráðherra Ítalíu hefur kallað eftir því að lengri frestur verði veittur. Segir hann aðila verða að finna lausn með diplómatískum hætti.