Ekvadorar í sárum

Stuðningsmenn Villavicencio halda á borða: „Þeir myrtu forsetann okkar. Heiglar!“
Stuðningsmenn Villavicencio halda á borða: „Þeir myrtu forsetann okkar. Heiglar!“ AFP/Rodrigo Buendia

Ekvadorar eru í sárum eftir að Fernando Villavicencio var skotinn til bana á kosningafundi. Villavicencio var í framboði til forseta landsins og barðist einarðlega gegn spillingu.

Morðið var framið aðeins nokkrum dögum áður en kosningar eiga að fara fram og hafa stjórnvöld í Ekvador lýst yfir neyðarástandi.

Þriggja daga þjóðarsorg

Villavicencio, sem var 59 ára að aldri, hafði kvartað undan því að hafa borist fjölda líflátshótana áður en hann var ráðinn af dögum í höfuðborginni Quito í gærkvöldi.

Guillermo Lasso, sitjandi forseti í Ekvador, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg og tveggja mánaða neyðarástandi í kjölfar morðsins. Hann sagði að kosningarnar, sem fram eiga fara 20. ágúst, muni fara fram eins og upphaflega var ætlað.

Tamia Villavicencio, dóttir forsetaframbjóðandans, var viðstödd útför föður síns í …
Tamia Villavicencio, dóttir forsetaframbjóðandans, var viðstödd útför föður síns í Quito í dag. AFP/Rodrigo Buendia

Lasso forseti sækist ekki eftir endurkjöri. Hann sagði: „Þetta er pólitískur glæpur, með öll einkennismerki hryðjuverks. Við erum í engum vafa að morðið er tilraun til þess að hafa áhrif á kosningarferlið“.

Baráttumaður gegn spillingu

Villavicencio var mjög áberandi í forsetatíð Rafaels Correa á árunum 2007 til 2017, og barðist einarðlega gegn spillingu í Ekvador. Hann hafði rannsakað mörg spillingarmál sem sjálfstætt starfandi blaðamaður og leiddist úr því í stjórnmál. Hann vann að mörgum kærumálum gegn háttsettum embættismönnum í stjórn Correa forseta, þar af var eitt málið rekið gegn forsetanum sjálfum.

Hann hlaut átján mánaða dóm fyrir að sverta mannorð Correa forseta og flúði inn á landssvæði frumbyggja í Ekvador og hlaut loks hæli í nágrannaríkinu Perú.

Skotmark glæpasamtaka

Haft er eftir Edison Romo, sem eitt sinn gegndi stöðu ofursta í leyniþjónustu hersins í Ekvador, að vegna baráttu sinnar gegn spillingu hefði Villavicencio gert sig að skotmarki alþjóðlegra glæpasamtaka.

Nýlega hafði Villavicencio skilað skýrslu til dómsmálaráðherra Ekvador um olíuiðnað landsins. Ekkert hefur frést um innihald þeirrar skýrslu. Villavicencio var virkur í stéttarfélagi ríkisolíufélagsins Petroecuador, og hafði fordæmt að ógrynni fjár hafi tapast í samningum um olíuvinnslu.

Patricio Zuquilanda sem vann sem ráðgjafi í kosningabaráttu Villavicencio, sagði að forsetaframbjóðandanum hafi borist minnst þrjár líflátshótanir fyrir morðið. Villavicencio tilkynnti um allar hótanirnar og leiddi það til þess að einn situr í haldi fyrir slíka hótun.

Sinaloa eiturlyfjahringurinn hótaði lífláti

Villavicencio hafði líka áður sagt frá því að honum hafi borist fjölda líflátshótana áður. Sumar þeirra komu frá mexíkóska eiturlyfjahringnum sem kenndur er við héraðið Sinaloa. Skipulagðir glæpahópar eru mjög virkir í Ekvador og er talið að framboð Villavicencio hafi ógnað stöðu þeirra.

Villavicencio vildi sjálfur ekki heyra á það minnst að hætta virkri kosningabaráttu vegna líflátshótananna. Hann sagði: „Að halda kjafti og fara í felur þegar glæpamenn myrða almenna borgara og fulltrúa yfirvalda væri heigulsháttur“.

Lorena Villavicencio, systir forsetaframbjóðandans, fær lík bróður síns afhent til …
Lorena Villavicencio, systir forsetaframbjóðandans, fær lík bróður síns afhent til greftrunar fyrir utan spítala í Quito. AFP/Galo Paguay

Af þeim sem eru í framboði í kosningunum í ágúst hefur um 30 verið tryggð sérstök lögregluvernd vegna þess óöryggis sem ríkir í landinu. Gengið var frá þeirri vernd áður en Villavicencio var myrtur. Mikil alda ofbeldis hefur gengið um Ekvador í tengslum við umsýslu fíkniefna. Samkvæmt Al Jazeera hefur morðtíðnin tvöfaldast í Ekvador milli áranna 2021 og 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert