Forsetaframbjóðandi skotinn til bana

Fernando Villavicencio á blaðamannafundi á þriðjudag.
Fernando Villavicencio á blaðamannafundi á þriðjudag. AFP/Rodrigo Buendia

Fernando Villavicencio, frambjóðandi í komandi forsetakosningum í Ekvador sem barist hefur gegn spillingu og glæpagengjum, var skotinn til bana í gær. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu í kjölfar morðsins.

Villavicencio var skotinn er hann yfirgaf kosningaviðburð í höfuðborginni Quito. Að minnsta kosti níu manns særðust í árásinni, þar á meðal einn frambjóðandi til þingsins og tveir lögreglumenn.

Einn af meintum árásarmönnum var skotinn til bana af öryggisstarfsmönnum.

Villavicencio var 59 ára gamall miðjumaður í stjórnmálum, þingmaður og fyrrverandi blaðamaður. Hann var kvæntur og átti fimm börn.

Skotum var hleypt af að loknum kosningafundi.
Skotum var hleypt af að loknum kosningafundi. AFP

Heitir hörðum aðgerðum gegn glæpastarfsemi

Guillermo Lasso, forseti landsins, hefur lýst yfir 60 daga neyðarástandi um allt land og heitir hörðum aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

„Herinn er frá og með þessari stundu virkjaður um allt land til að tryggja öryggi borgaranna og frjálsar, lýðræðislegar kosningar,“ sagði Lasso í dag.

Áætlað er að fyrri umferð forsetakosninganna fari fram 20. ágúst. Villavicencio var einn af átta frambjóðendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert