Fernando Villavicencio, forsetaframbjóðandi í Ekvador, sem var myrtur í gær var skotinn þrisvar sinnum í höfuðið. Árásarmennirnir eru sagðir hafa hleypt af 30 skotum að loknum kosningaviðburði í íþróttamiðstöð í höfuðborginni Quito.
Einn meintra árásarmannanna var skotinn til bana á vettvangi af öryggisstarfsmönnum. Aðrir sex hafa verið handteknir.
Guillermo Lasso, forseti Ekvador, hefur lýst yfir tveggja mánaða neyðarástandi í landinu. Hann lýsti einnig yfir þriggja daga þjóðarsorg til að heiðra minningu Villavicencio.
„Þetta er pólitískur glæpur með eiginleika hryðjuverka og við efumst ekki um að þetta morð sé tilraun til að spilla kosningaferlinu,“ sagði Lasso, sem sækist ekki eftir endurkjöri.
Fyrri umferð kosninga mun fara fram samkvæmt áætlun þann 20. ágúst.
Að minnsta kosti níu manns særðust í árásinni, þar af einn frambjóðandi til þingsins og tveir lögreglumenn. Bandaríkin, Spánn og Síle hafa fordæmt glæpinn.
Lasso sagði hug sinn vera hjá eiginkonu Villavicencio og dætrum hans, en hann átti fimm dætur.