Sögufrægur bær nánast brunninn til grunna

Stjórnlausir skógareldar á eyjunni Maui í Havaí-eyjaklasanum hafa nú brennt hinn sögulega bæ Lahaina nánast til grunna. Greinir Brian Schatz, öldungadeildarþingmaður Havaí-ríkis á Bandaríkjaþingi, frá þessu á samfélagsmiðlum.

Að minnsta kosti 36 manns hafa nú látist af völdum skógareldanna á Maui en sjúkrahús eyjarinnar eru yfirfull þar sem gert er að brunasárum auk þess sem margir fá meðhöndlun við reykeitrun. Að sögn Schatz berjast slökkviliðismenn við eldana en auk þess sé mikil áhersla á að leita að fólki og koma því til bjargar.

Greindu fjölmiðlar frá því í gær að fólk hefði hlaupið út í sjó til að forða sér undan eldhafinu sem fer mjög hratt yfir. Hafa skip bandarísku strandgæslunnar bjargað um tylft manna úr sjónum. Fjöldi heimila og fyrirtækja hefur orðið skógareldunum að bráð og lýsti sjónarvottur því fyrir fréttastofu Hawaii News Now að eldur logaði í fjölda báta í smábátahöfninni við Lahaina.

Reykjarmökkur stendur upp af hinum sögufræga bæ Lahaina á Hawaii.
Reykjarmökkur stendur upp af hinum sögufræga bæ Lahaina á Hawaii. AFP/Carter Barto

13.000 án rafmagns

„Ég hef ekki hugmynd um hvar litli bróðir minn er,“ sagði Tiare Lawrence í örvæntingu við Hawaii News Now og bætti því við að hún vissi heldur ekkert um afdrif stjúpföður síns.

Um 13.000 manns á Maui voru án rafmagns í gær auk þess sem farsímasamband var í lamasessi hjá fjölda manns. Að sögn bandarísku veðurstofunnar knýr hvirfilbylurinn Dora eldinn en hann fór fram hjá Havaí í nokkurri fjarlægð með vindhraða um 97 kílómetra á klukkustund.

Eyðileggingin er mikil á Maui og hafa hviður frá hvirfilbylnum …
Eyðileggingin er mikil á Maui og hafa hviður frá hvirfilbylnum Doru knúið logana. AFP/Richard Olsten

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu að ríkisstjórnin hefði sent liðsauka til Havaí til að aðstoða við slökkvistarf og björgun en um 4.000 ferðamenn eru nú að reyna að komast frá Maui. Hafa yfirvöld á Maui beðið fólk að halda sig fjarri Lahaina þar sem vegir umhverfis borgina séu lokaðir öllum nema viðbragðsaðilum.

„Þar er ekki öruggt að vera,“ sagði Sylvia Luke aðstoðarríkisstjóri Havaí, en Lahaina er 18. aldar bær sem er á skrá yfir sögufræga staði í Bandaríkjunum.

BBC

Eldarnir sjást greinilega á gervihnattamyndum.
Eldarnir sjást greinilega á gervihnattamyndum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert