Horfðu á bæinn sinn brenna til kaldra kola

Miklir skógareldar hafa geisað á eyjunni Maui sem er næst stærst þeirra eyja sem tilheyra Havaí-eyjaklasanum en eldarnir hafa einnig herjað á Havaí-eyju. Fleiri en 50 manns hafa látið lífið síðan eldarnir hófust fyrr í vikunni, en viðbragðsaðilar hafa þó aðeins getað leitað utandyra og gæti því fjöldi látinna aukist umtalsvert.

Ekolu Brayden Hoapili og kærasta hans eru meðal þeirra sem rétt sluppu frá gróðureldunum sem herjað hafa á Hawaii. „Allt er rautt. Þer ekkert nema ryk og vindur“ segir Hoapili, en hann flúði lítinn ferðamannabæ Lahaina, á vesturströnd eyjunnar Maui. Í bænum búa um tólf þúsund manns, en milljónir ferðamanna sækja bæinn ár hvert. 

Ekkert er eftir nema aska í bænum Lahaina.
Ekkert er eftir nema aska í bænum Lahaina. AFP

 

Mér leið eins og ég væri að deyja

„Ég horfi í áttina að bensínstöðinni og hún stendur í ljósum logum. Ég sé ekkert nema reyk og ösku, allt stendur í björtu báli og ég segi „við verðum að fara“. Mér leið eins og ég væri að deyja,“ segir Hoapili, sem segist hafa verið milli steins og sleggju yfir annars vegar ánægjunni að vera enn á lífi og hins vegar eftirsjánni að hafa ekki verið eftir til þess að aðstoða fólk. 

„Þegar ég lít til baka þá skildi ég svo mikið af fólki eftir og ég veit að ég hefði getað gert eitthvað. En ég gat það samt ekki því hefði ég gert það þá væri ég ekki hér,“ segir hann. 

Við hlið hans situr kærastan hans sem tjáir sig um sjónina að sjá heimabæ sinn brenna til kaldra kola. „Ég ólst upp í bænum, ég á minningar héðan. Hvert einasta skref sem ég tek tengi ég við einhverja minningu. Ég er miður mín að sjá allar myndirnar og myndböndin af heimabæ mínum sem er nú horfinn,” segir hún. 

Fleiri en þúsund hús hafa brunnið til kaldra kola í …
Fleiri en þúsund hús hafa brunnið til kaldra kola í Lahaina í gróðureldunum. AFP

Allt orðið að ösku

Minjagripaverslanir, veitingastaðir, barir og sögulegar byggingar hafa orðið að ösku vegna eldanna sem undirlögðu bæinn, sem og stór hluti af smábátahöfninni þar sem þúsundir manna höfðu áður varið tíma sínum á.

„Við sáum reykinn langt í burtu til að byrja með en innan við mínútu eða tvær var reykurinn kominn inn í húsið,“ segir Sarai Cruz, sem vinnur á veitingastað í Lahaina. Bætir hún við að í framhaldi hafi hún og fjölskylda hennar flúið úr húsinu, og rétt náð að grípa það allra mikilvægasta með sér. „Þetta er skrýtin tilfinning og við trúum þessu ekki enn. Þetta er allt afskaplega sorglegt,“ segir hún.  

„Það er ekkert eftir, allt er horfið og eftir er bara draugabær,” bætir hún við að lokum.  

Eyðileggingin er gríðarleg í Lahaina, á vesturströnd eyjunnar Maui.
Eyðileggingin er gríðarleg í Lahaina, á vesturströnd eyjunnar Maui. AFP/Patrick T. Fallon
Meira en fímmtíu manns hafa látið lífið í eldunum.
Meira en fímmtíu manns hafa látið lífið í eldunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert