Óbærilegur hiti á Kanaríeyjum

Frá Las Vistas-ströndinni á Tenerife. Mynd úr safni.
Frá Las Vistas-ströndinni á Tenerife. Mynd úr safni. AFP

Rúmlega 45 gráða hiti mældist í Maspalomas á Gran Canaria í dag. Ákaflega heitt var á suðurhluta eyjunnar í dag og er búist við að þannig verði það alla helgina, samkvæmt umfjöllun fréttamiðilsins Canarias7.

Veðurstofa Spánar hefur sett nær alla eyjuna á rautt viðbúnaðarstig vegna gríðarlegra hita. Gildir sú viðvörun á milli klukkan 11 og 20 á daginn.

Næsthæsti hiti Spánar í sumar

Hitinn sem mældist í dag er sá næsthæsti sem mælst hefur á Spáni í sumar. Áður hafði 45,2 stiga hiti mælst í Carrión de los Céspedes nálægt Sevilla.

Þykir hitinn erfiður á Kanaríeyjum núna, þar sem hann var þegar kominn upp í rúmar 42 gráður klukkan tíu um morguninn.

Nærri 35 gráður um miðja nótt

Þá þykir einkar erfitt í þessari hitabylgju sem gengur yfir eyjarnar að hitinn gengur lítið niður yfir nóttina.

Sem dæmi fór hann yfir 34,9 gráður klukkan þrjú um nótt, þegar margir treysta á svalann til að festa svefn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert