Íbúar gagnrýna viðbrögð vegna skógareldana í Havaí

Davilynn Severson og Hano Ganer leita að eigum sínum í …
Davilynn Severson og Hano Ganer leita að eigum sínum í ösku heimilis fjölskyldu sinnar, í kjölfar skógarelda í Lahaina. AFP/Patrick T. Fallon

Lögreglustjórinn á Havaí tilkynnti um það í gær að hún ætlaði að hefja rannsókn á viðbrögðum vegna hrikalegra skógarelda, sem urðu minnst 80 manns í ríkinu að bana í þessari viku. Ástæðuna segir hún vera vegna vaxandi gagnrýni á viðbrögð hins opinbera í kjölfar skógareldanna. 

Þegar lögreglustjórinn tilkynnti um rannsóknina, tilkynnti hún jafnframt um aukna tölu látinna vegna skógareldanna. Á sama tíma voru íbúar Lahaina á leið aftur heim, í fyrsta sinn eftir afléttingu rýmingar á svæðinu.

Flestir komu að heimilum sínum í ösku og voru margir reiðir yfir því að bærinn hafi verið yfirgefinn og húsin látin brenna. 

Íbúar upplifa vonleysi

„Hvar er ríkisstjórnin? Hvar eru þau?“ sagði maður sem ekki vildi láta nafns síns getið.

"Þetta er geðveiki. Við erum ekki frjáls ferða okkar, við fáum engan stuðning og nú heyrum við um rán,“ bætir hann við. 

Anne Lopez, dómsmálaráðherra Havaí, sagði að skrifstofa hennar myndi skoða „gagnrýna ákvarðanatöku og fasta stefnu í aðdraganda, á meðan og eftir skógareldana á Maui og Havaí í þessari viku. 

Þá bætti hún því jafnframt við að deildin myndi birta niðurstöðurnar opinberlega. 

Seint í gærkvöldi birtu embættismenn á eyj­unni Maui í Havaí-eyja­klas­an­um tölu yfir fjölda látinna sem hefur hækkað upp í 80. Við það bættu þeir upplýsingum um að 1.418 manns væru í neyðarrýmingarskýlum. 

Endurfundir

Þó íbúar hafi verið óánægðir með viðbrögð yfirvalda vegna skógareldanna ríkti gleði þegar þeir sneru aftur til Lahaina og hittu nágranna sína, sem þeir óttuðust að hefðu ekki komist lífs af. 

„Þú lifðir af!“ hrópaði Chyna Cho, þegar hún faðmaði Amber Langdon innan um rústirnar. „Ég var að reyna að finna þig.“

Hjá þeim heppnustu var mikil gleði, þó milduð af umfangi harmleiksins sem telst meðal verstu náttúruhamfara sem dunið hafa yfir Havaí

„Ég bara trúði þessu ekki,“ sagði Keith Todd í samtali við AFP þegar hann hafði fundið heimili sitt heilt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert