Indónesískar björgunarsveitir leita nú að sjö manns, þar af fjórum áströlskum ferðamönnum, sem saknað hefur verið síðan bátur þeirra lenti í illviðri undan ströndum indónesísku eyjarinnar Súmötru.
Lögðu tveir bátar í haf með samtals sautján manns innanborðs frá eyjunni Nias í gær og var förinni heitið til eyjarinnar Pinang sem er í einkaeigu. Þegar veðrið skall á kaus áhöfn annars bátsins, með tíu manns um borð, að fara í var við eyju á leiðinni en hinn hélt áfram og hefur ekkert til hans spurst síðan að sögn Octavianto, stjórnanda leitarinnar.
„Við höfum leitað síðan í morgun og munum halda leit áfram fram eftir kvöldi,“ segir Octavianto við AFP-fréttastofuna, „komi ekkert út úr því hefjum við leit aftur klukkan sjö í fyrramálið.“ Tvö björgunarskip og leitarflugvél sinna leitinni nú.
Í bátnum sem fór í var voru átta ástralskir ferðamenn og tveggja manna indónesísk áhöfn. Kom hann á áfangastað, til eyjarinnar Pinang, seint í gærkvöldi.
„Hugur okkar er hjá fjölskyldum og vinum þeirra sem saknað er á þessari ögurstundu,“ segir talsmaður ástralska utanríkisráðuneytisins við AFP.
Sjóslys og skipsskaðar eru tíð við strendur og eyjar Indónesíu en þær eru um 17.000 talsins. Árið 2018 fórust rúmlega 150 manns þegar ferja sök í eitt dýpsta stöðuvatn heims á Súmötru.