Eldurinn sem skók Lahaina á Maui hefur valdið gríðarlegu tjóni á mönnum og munum en frægustu kokkar Havaí veita nú þeim sem eftir lifa aðstoð á þann hátt sem þeir best kunna og elda fyrir þá mat.
„Við vitum að matur er meðal,“ er haft eftir Sheldon Simeon, sem er einn frægasti kokkur Havaí og kemur frá Maui. Segir hann að heit máltíð þjóni sem eins konar tenging við Havaí og sé miklu betri en matur úr dós. Kveðst hann vona að matarþjónustan veiti fólkinu einhvers konar heilun.
Skógareldarnir í Lahaina í síðustu viku voru þeir mannskæðustu í Bandaríkjunum í meira en öld, en að minnsta kosti 96 manns létu þá lífið og eru þúsundir íbúa nú heimilislausir í kjölfar eldanna. Fyrir vikið gista nú 1.400 heimamenn í neyðarskýlum, hjá ættingjum eða í bílum sínum.
Simeon, kokkateymi hans og duglegir sjálfboðaliðar hafa því komið sér fyrir í eldhúsi nálægs háskóla og matreiða þar máltíðir á methraða til að anna eftirspurn hinna svöngu íbúa Lahaina. Meðal kokkanna eru keppendur vinsæla þáttarins Top Chef og eldar hópurinn nú um 9.000 máltíðir á dag.
„Sumir kokkanna okkar misstu sín eigin heimili og eru samt hér að elda með okkur fyrir samfélagið sitt,“ segir Simeon.
Vegna þess hve mikinn mat þarf að reiða fram miðast matseðill hvers dags við hvaða hráefni eru aðgengilegust hverju sinni.
„Ég veit að það er mikið að gera, sjö eða níu þúsund máltíðir á dag, þannig að maður verður bara að vinna á skapandi hátt með það sem manni stendur til boða,“ útskýrir Simeon.
Að þurfa að elda svona mikið magn matar þýðir að kokkarnir séu varla búnir að reiða fram hádegismat þegar þeir þurfa að hefjast handa við kvöldmatinn. Sem betur fer hefur sjálfboðaliðum fjölgað með þeim afleiðingum að kokkarnir fá meiri hvíld en vaktir þeirra eru engu að síður afar langar.
Kvarta kokkarnir þó ekki og segir einn þeirra, einkakokkurinn Taylor Ponte:
„Við, sem kokkar, sofum í raun aldrei hvort sem er.“