Afmælisferð í hringiðu gróðurelda á Havaí

Ellý var stödd ásamt Dave var stödd rétt við Lahaina …
Ellý var stödd ásamt Dave var stödd rétt við Lahaina þegar eldarnir komu upp. Þau fréttu ekki hversu miklar hamfararnir hefðu verið fyrr en nokkrum dögum seinna. Samsett mynd/AFP/Yuki Iwamura og Ellý

Ellý Steinsdóttir átti stórafmæli 10. ágúst. Að því tilefni fór hún til draumaeyjunnar Maui í Havaí-eyjaklasanum ásamt manni sínum, Dave Dunbar. Afmælisferðin átti eftir að breytast því þau lentu fljótt í hringiðu gróðureldanna í Lahaina og komust frá Maui fyrst í gær. Hún ræddi við mbl.is um hamfarirnar og upplýsingaleysið sem hún og aðrir ferðamenn upplifðu dagana eftir eldana. 

Ellý kom til Lahaina á sunnudeginum fyrir eldana og varði mánudeginum að spóka sig um bæinn sem rómaður var fyrir fegurð sína. Um kvöldið taka þau eftir því að það er óvenjulega hvasst, en hugsa ekki frekar út í það enda hafði engum fellibyl verið spáð. Um nóttina átta þau sig svo á því að rafmagnslaust er orðið á hótelinu.

Litlar fréttir af alvarleika eldanna í nokkra daga

Á þriðjudeginum eru þau að snæða á hótelinu og byrja að fá fregnir að allt sé komið í óefni og að rafmagnsstaurar hafi fallið til jarðar í óveðrinu. Ellý var á hóteli mjög nálægt Lahaina, „ekki ósvipað og ef maður væri í Kársnesi að horfa yfir til Reykjavíkur. Ég áttaði mig alls ekki strax á alvarleika málsins. Við fundum enga brunalykt hjá okkur. Allir okkar megin voru ákaflega rólegir, áttuðum okkur á að gróðureldar höfðu kviknað og heyrðum sannarlega í sírenum slökkvibíla. Seinna um daginn fer að kvisast út að eldarnir væru komnir niður í Lahaina og allt væri að brenna. Við sátum bara og vissum lítið hvað við áttum að gera. Það skrýtna er er það að við fundum aldrei neina brunalykt þar sem vindurinn stóð í allt aðra átt.“

Þegar komið er fram á miðvikudag skilja þau aðeins betur að eitthvað meiriháttar hafi átt sér stað en fá í raun litlar fregnir enda rafmagnslaust með öllu og allt lokað. Gengið hafði á matar- og vatnsbirgðir, því ekki mátti drekka kranavatnið þar sem það var mengað vegna eldanna.

Ellý tók myndir af eldunum á hlaupum.
Ellý tók myndir af eldunum á hlaupum. Ljósmynd/Aðsend

Það er í raun ekki fyrr en á fimmtudaginn sem Ellý skilur almennilega hvað um var að vera. Þá kemst hún í símsamband og fær skilaboð frá vinum og ættingjum á Íslandi um hamfarirnar. Samt var hún bara hinum megin við voginn. Þannig gat hún deilt upplýsingum með öðrum á hótelinu sem vissu jafn lítið um það sem hafði gerst. Ellý og Dave ákváðu engu að síður að bíða róleg.

Heimamenn flykkjast á hótelin

„Við vissum að allt var í steik á flugvellinum og við ákváðum því að bíða róleg. Við vorum heil á húfi og gátum orðið okkur úti um vatn. Við skildum það að fjölskyldufólk með börn vildi komast í burtu hið fyrsta og komumst því ekki í burtu fyrr en í gær,“ segir hún.

Þegar hér er komið við sögu voru heimamenn farnir að flykkjast á hótelin, fólk sem misst hafði allt sitt í brunanum. Það kom sér fyrir á herbergjum ferðamanna sem höfðu yfirgefið eyjuna.  

Horft yfir voginn til Lahaina þegar eldarnir voru í rénun. …
Horft yfir voginn til Lahaina þegar eldarnir voru í rénun. Vinstra megin má sjá aðstöðuna á hótelinu þegar komið hafði verið upp lítilli rafstöð svo gestir gætu hlaðið símtæki sín og önnur raftæki. Samsett mynd

„Á þessu stigi eru farnar að berast meiri upplýsingar. Þá eru sett upp skilaboð á hótelinu að matarsending komi á tilteknum tíma, vatn á öðrum tíma. Allir gátu hlaðið farsímana sína í lítilli rafstöð í móttökunni.“

Ellý segir fólkið hafa borið sig ótrúlega vel í þessum harmleik. Hún hafi dáðst af ró þeirra í þessum skelfilegu aðstæðum.

„Sumt fólkið hafði verið niður í Lahaina og horfði upp á það þegar fólk henti börnum sínum í sjóinn og hoppaði á eftir þeim. Það gat ekki einu sinni farið í bátana, því þeir brunnu líka. Það er enn verið að leita að fólki þarna.“

„Allt brunnið til ösku“

Ellý fór frá Maui í gær. Hún þurfti að keyra í gegnum Lahaina til að komast á flugvöllinn. „Ég hafði verið í Lahaina deginum áður en þetta gerðist, allir höfðu verið svo yndislegir og svo gaman að tala við fólk, og nú var þetta allt brunnið til ösku.“

Ellý segist dást af þeim krafti sem hún fann í fólki við þessar hræðilegu aðstæður. „Fólk er ótrúlegt þegar eitthvað svona gerist, samstöðukrafturinn sem ég sá var alveg magnaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert