Trump og ákærurnar fjórar

Donald J. Trump var 45. forseti Bandaríkjanna.
Donald J. Trump var 45. forseti Bandaríkjanna. AFP/Timothy A. Clary

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur átt vægast sagt erilsamt ár en fjórar ákærur hafa verið gefnar út á hendur honum í fjórum ríkjum.

Hann er fyrsti forsetinn í 234 ára sögu Bandaríkjanna til þess að verða ákærður og gæti þar af leiðandi einnig orðið sá fyrsti til að verða sakfelldur. 

Blaðamaður mbl.is tók saman ákærurnar fjórar og studdist til þess við samantekt Politico

Árásin á þinghúsið 6. janúar

Ákæra í málinu var gefin út 1. ágúst en málið í Washington hverfist fyrst og fremst í kringum árásina á þinghúsið í höfuðborginni 6. janúar árið 2021, nokkrum vikum áður en Trump lét af embætti forseta.

Eftir að forsetakosningarnar voru haldnar 3. nóvember árið 2020 reyndi Trump hvað hann gat að grafa undan sigri Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins.

Trump og aðstoðarmenn hans dreifðu röngum upplýsingum um meint kosningasvik, hvöttu embættismenn repúblikana í ríkjunum sem Biden vann til að grafa undan úrslitunum, búa til falska kjósendur og þrýsta á Mike Pence varaforseta til þess að fordæma niðurstöðurnar.

Umstangið náði hápunkti 6. janúar er fjöldi stuðningsmanna Trumps réðst inn í þinghúsið í Washington.

6. janúar réðst fjöldi stuðningsmanna Trumps inn í þinghúsið í …
6. janúar réðst fjöldi stuðningsmanna Trumps inn í þinghúsið í Washington. AFP/Saul Loeb

Jack Smith sérstakur saksóknari leiðir málið gegn Trump og snýr það að tilraunum hans til að eiga við úrslitin og þar með koma í veg fyrir réttindi milljóna Bandaríkjamanna.

Smith var falið af dómsmálaráðuneytinu að fara fyrir rannsókninni eftir rannsókn sérstakrar þingnefndar á málinu. Þingnefndin hafði haft málið á sinni könnu í marga mánuði og fengið fjölda fyrrverandi starfsmanna Trumps til að bera vitni, þar á meðal Mike Pence. 

Það vakti athygli þegar ákæruliðir voru birtir að Trump er ekki ákærður fyrir ákveðin ummæli í tengslum við árásina á þinghúsið, heldur er ákæran byggð á opnari túlkun, meðal annars um samsæri um svik við Bandaríkin og samsæri gegn réttindum bandarískra borgara.

Þá eru engir af meintum sex samverkamönnum hans nafngreindir í ákærunni, en það gæti verið leið Smiths til að setja pressu á sexmenningana til að aðstoða ákæruvaldið í málinu gegn því að verða sleppt við að verða nafngreindir síðar í málsmeðferðinni.

Trúnaðarskjölin

Jack Smith leiðir einnig málið í Flórída sem snýr að því að Trump hafi tekið með sér trúnaðarskjöl úr Hvíta húsinu eftir að hann lét af embætti 20. janúar árið 2021. Þá er Trump sagður hafa reynt að koma í veg fyrir að yfirvöld endurheimtu skjölin.

Ákæran er gefin út í Flórída þar sem skjölin voru flutt á heimili Trump í Mar-a-Lago.

Rannsókn á málinu hófst snemma á síðasta ári og í júní sagði lögmaður Trumps að hann hefði afhent öll skjöl. Tveimur mánuðum síðar leitaði alríkislögreglan FBI á heimili Trumps og fann 102 skjöl merkt sem leyniskjöl.

Í nóvember var Smith fenginn til liðs við rannsóknina og 9. júní var gefin út ákæra í 37 liðum. Einnig var gefin út ákæra á hendur aðstoðarmanni Trumps, Walt Nauta, í sex liðum.

Trump neitaði sök fyrir dómi í Miami 13. júní.

102 skjöl merkt sem leyniskjöl fundust á heimili Trumps í …
102 skjöl merkt sem leyniskjöl fundust á heimili Trumps í Flórída. AFP/Bandaríska dómsmálaráðuneytið

1. júlí bætti Smith þremur ákæruliðum við ákæru Trump og tveimur við ákæruna á hendur Nauta. Þá var einnig gefin út ákæra á hendur Carlos De Oliveira, umsjónarmanni eignarinnar í Mar-a-Lago, í fjórum liðum.

Nýja ákæran inniheldur ásakanir um að Trump, Nauta og De Oliveira hafi reynt að eyðileggja myndskeið og öryggismyndavélum eftir að rannsakendur reyndu að leggja hald á upptökuna.

Hann er sagður hafa að minnsta kosti tvisvar sinnum sýnt einstaklingum sem höfðu ekki heimild skjölin. Í annað skiptið heyrist Trump segja á upptöku að ef hann væri forseti þá hefði hann getað opinberað skjölin. „En nú get ég það ekki,“ heyrist hann segja og því eru skjölin „enn leyndarmál“. Skjölin snéru að varnarmálum Bandaríkjanna.

Réttarhöld í málinu eiga að hefjast 20. maí á næsta ári í Fort Pierce í Flórída.

Lögspekingar telja bæði mál Smiths vera sérstaklega vel framsett og rannsökuð. Í báðum málunum er um að ræða alríkisglæpi svo að ef Trump verður aftur kjörinn forseti væri möguleiki á að hann gæti veitt sjálfum sér uppreist æru, það er að segja ef hann verður sakfelldur. Þar sem slíkt hefur þó ekki gerst áður eru afleiðingarnar óljósar. 

Jack Smith alríkissaksóknari.
Jack Smith alríkissaksóknari. AFP/Saul Loeb

Kosningarnar í Georgíu

Tilraunir Trumps til þess að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna voru án efa róttækastar í Georgíu. Endurtalningar staðfestu að Biden hefði borið sigur úr býtum í ríkinu þrátt fyrir að mjótt hefði verið á munum.

Trump og stuðningsmenn hans sögðu hins vegar brögð hafa verið í tafli og hvöttu stjórnmálamenn í ríkinu til að grafa undan úrslitunum.

1. janúar 2021 hringdi Trump í Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu, og hvatti hann til þess að „finna“ 11.780 atkvæði, sem er sá fjöldi sem Trump þurfti til þess að vinna ríkið.

Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu í Atlanta, fer fyrir málinu en hún hóf rannsóknina í febrúar árið 2021.

Í dag var síðan 98 blaðsíðna ákæra í 13 liðum gefin út. Auk Trump eru 18 aðrir ákærðir í málinu og eru ákæruliðirnir samtals 41.

Willis sagðist á blaðamannafundi í dag vonast til að réttarhöldin hæfust innan sex mánaða.

Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu í Atlanta.
Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu í Atlanta. AFP/Joe Raedle/Getty Images

Þagnargjaldið

Trump er enn fremur sakaður um að hafa falsað skjöl í tengslum við þagnargjald sem hann greiddi fyrrverandi klámstjörnunni Stormy Daniels árið 2016. Peningana greiddi hann henni til þess að hún myndi ekki uppljóstra um ástarsamband þeirra.

Með því að greiða Daniels kom Trump í veg fyrir yfirvofandi hneykslismál á síðustu vikum forsetaframboð hans.

Stormy Daniels.
Stormy Daniels. AFP

Michael Cohen, lögmaður Trumps, greiddi Daniels 130 þúsund bandaríkjadali í október 2016, eða um 17 milljónir króna. Er Trump varð forseti greiddi hann Cohen til baka í nokkrum greiðslum í gegnum fyrirtækið sitt.

Saksóknarar telja Trump hafa þannig svikið undan skatti með því að dulbúa þær sem lögfræðikostnað. Cohen hefur snúið baki við Trump og þykir líklegt að hann beri vitni gegn honum í réttarhöldunum.  

Þann 1. mars ákvað ákærudómstóll á Manhattan að ákæra Trump. Fimm dögum síðar var gefin út ákæra sem er í 34 liðum.

Trump gaf sig sjálfviljugur fram fyrir dómi. Hann neitaði sök og var í framhaldinu látinn laus gegn tryggingu.

Réttarhöld í málinu eiga að hefjast 25. mars árið 2024.

Því er ljóst að næsta ár verður líklega ekki rólegra hjá forsetanum fyrrverandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka