Trump og ákærurnar fjórar

Donald J. Trump var 45. forseti Bandaríkjanna.
Donald J. Trump var 45. forseti Bandaríkjanna. AFP/Timothy A. Clary

Don­ald Trump, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seti, hef­ur átt væg­ast sagt er­ilsamt ár en fjór­ar ákær­ur hafa verið gefn­ar út á hend­ur hon­um í fjór­um ríkj­um.

Hann er fyrsti for­set­inn í 234 ára sögu Banda­ríkj­anna til þess að verða ákærður og gæti þar af leiðandi einnig orðið sá fyrsti til að verða sak­felld­ur. 

Blaðamaður mbl.is tók sam­an ákær­urn­ar fjór­ar og studd­ist til þess við sam­an­tekt Politico

Árás­in á þing­húsið 6. janú­ar

Ákæra í mál­inu var gef­in út 1. ág­úst en málið í Washingt­on hverf­ist fyrst og fremst í kring­um árás­ina á þing­húsið í höfuðborg­inni 6. janú­ar árið 2021, nokkr­um vik­um áður en Trump lét af embætti for­seta.

Eft­ir að for­seta­kosn­ing­arn­ar voru haldn­ar 3. nóv­em­ber árið 2020 reyndi Trump hvað hann gat að grafa und­an sigri Joe Biden, fram­bjóðanda Demó­krata­flokks­ins.

Trump og aðstoðar­menn hans dreifðu röng­um upp­lýs­ing­um um meint kosn­inga­svik, hvöttu emb­ætt­is­menn re­públi­kana í ríkj­un­um sem Biden vann til að grafa und­an úr­slit­un­um, búa til falska kjós­end­ur og þrýsta á Mike Pence vara­for­seta til þess að for­dæma niður­stöðurn­ar.

Umstangið náði hápunkti 6. janú­ar er fjöldi stuðnings­manna Trumps réðst inn í þing­húsið í Washingt­on.

6. janúar réðst fjöldi stuðningsmanna Trumps inn í þinghúsið í …
6. janú­ar réðst fjöldi stuðnings­manna Trumps inn í þing­húsið í Washingt­on. AFP/​Saul Loeb

Jack Smith sér­stak­ur sak­sókn­ari leiðir málið gegn Trump og snýr það að til­raun­um hans til að eiga við úr­slit­in og þar með koma í veg fyr­ir rétt­indi millj­óna Banda­ríkja­manna.

Smith var falið af dóms­málaráðuneyt­inu að fara fyr­ir rann­sókn­inni eft­ir rann­sókn sér­stakr­ar þing­nefnd­ar á mál­inu. Þing­nefnd­in hafði haft málið á sinni könnu í marga mánuði og fengið fjölda fyrr­ver­andi starfs­manna Trumps til að bera vitni, þar á meðal Mike Pence. 

Það vakti at­hygli þegar ákæru­liðir voru birt­ir að Trump er ekki ákærður fyr­ir ákveðin um­mæli í tengsl­um við árás­ina á þing­húsið, held­ur er ákær­an byggð á opn­ari túlk­un, meðal ann­ars um sam­særi um svik við Banda­rík­in og sam­særi gegn rétt­ind­um banda­rískra borg­ara.

Þá eru eng­ir af meint­um sex sam­verka­mönn­um hans nafn­greind­ir í ákær­unni, en það gæti verið leið Smiths til að setja pressu á sex­menn­ing­ana til að aðstoða ákæru­valdið í mál­inu gegn því að verða sleppt við að verða nafn­greind­ir síðar í málsmeðferðinni.

Trúnaðarskjöl­in

Jack Smith leiðir einnig málið í Flórída sem snýr að því að Trump hafi tekið með sér trúnaðarskjöl úr Hvíta hús­inu eft­ir að hann lét af embætti 20. janú­ar árið 2021. Þá er Trump sagður hafa reynt að koma í veg fyr­ir að yf­ir­völd end­ur­heimtu skjöl­in.

Ákær­an er gef­in út í Flórída þar sem skjöl­in voru flutt á heim­ili Trump í Mar-a-Lago.

Rann­sókn á mál­inu hófst snemma á síðasta ári og í júní sagði lögmaður Trumps að hann hefði af­hent öll skjöl. Tveim­ur mánuðum síðar leitaði al­rík­is­lög­regl­an FBI á heim­ili Trumps og fann 102 skjöl merkt sem leyniskjöl.

Í nóv­em­ber var Smith feng­inn til liðs við rann­sókn­ina og 9. júní var gef­in út ákæra í 37 liðum. Einnig var gef­in út ákæra á hend­ur aðstoðar­manni Trumps, Walt Nauta, í sex liðum.

Trump neitaði sök fyr­ir dómi í Miami 13. júní.

102 skjöl merkt sem leyniskjöl fundust á heimili Trumps í …
102 skjöl merkt sem leyniskjöl fund­ust á heim­ili Trumps í Flórída. AFP/​Banda­ríska dóms­málaráðuneytið

1. júlí bætti Smith þrem­ur ákæru­liðum við ákæru Trump og tveim­ur við ákær­una á hend­ur Nauta. Þá var einnig gef­in út ákæra á hend­ur Car­los De Oli­veira, um­sjón­ar­manni eign­ar­inn­ar í Mar-a-Lago, í fjór­um liðum.

Nýja ákær­an inni­held­ur ásak­an­ir um að Trump, Nauta og De Oli­veira hafi reynt að eyðileggja mynd­skeið og ör­ygg­is­mynda­vél­um eft­ir að rann­sak­end­ur reyndu að leggja hald á upp­tök­una.

Hann er sagður hafa að minnsta kosti tvisvar sinn­um sýnt ein­stak­ling­um sem höfðu ekki heim­ild skjöl­in. Í annað skiptið heyr­ist Trump segja á upp­töku að ef hann væri for­seti þá hefði hann getað op­in­berað skjöl­in. „En nú get ég það ekki,“ heyr­ist hann segja og því eru skjöl­in „enn leynd­ar­mál“. Skjöl­in snéru að varn­ar­mál­um Banda­ríkj­anna.

Rétt­ar­höld í mál­inu eiga að hefjast 20. maí á næsta ári í Fort Pierce í Flórída.

Lög­spek­ing­ar telja bæði mál Smiths vera sér­stak­lega vel fram­sett og rann­sökuð. Í báðum mál­un­um er um að ræða al­rík­is­glæpi svo að ef Trump verður aft­ur kjör­inn for­seti væri mögu­leiki á að hann gæti veitt sjálf­um sér upp­reist æru, það er að segja ef hann verður sak­felld­ur. Þar sem slíkt hef­ur þó ekki gerst áður eru af­leiðing­arn­ar óljós­ar. 

Jack Smith alríkissaksóknari.
Jack Smith al­rík­is­sak­sókn­ari. AFP/​Saul Loeb

Kosn­ing­arn­ar í Georgíu

Til­raun­ir Trumps til þess að hafa áhrif á niður­stöður kosn­ing­anna voru án efa rót­tæk­ast­ar í Georgíu. End­urtaln­ing­ar staðfestu að Biden hefði borið sig­ur úr být­um í rík­inu þrátt fyr­ir að mjótt hefði verið á mun­um.

Trump og stuðnings­menn hans sögðu hins veg­ar brögð hafa verið í tafli og hvöttu stjórn­mála­menn í rík­inu til að grafa und­an úr­slit­un­um.

1. janú­ar 2021 hringdi Trump í Brad Raffen­sper­ger, inn­an­rík­is­ráðherra Georgíu, og hvatti hann til þess að „finna“ 11.780 at­kvæði, sem er sá fjöldi sem Trump þurfti til þess að vinna ríkið.

Fani Will­is, héraðssak­sókn­ari í Fult­on-sýslu í Atlanta, fer fyr­ir mál­inu en hún hóf rann­sókn­ina í fe­brú­ar árið 2021.

Í dag var síðan 98 blaðsíðna ákæra í 13 liðum gef­in út. Auk Trump eru 18 aðrir ákærðir í mál­inu og eru ákæru­liðirn­ir sam­tals 41.

Will­is sagðist á blaðamanna­fundi í dag von­ast til að rétt­ar­höld­in hæf­ust inn­an sex mánaða.

Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu í Atlanta.
Fani Will­is, héraðssak­sókn­ari í Fult­on-sýslu í Atlanta. AFP/​Joe Raedle/​Getty Ima­ges

Þagn­ar­gjaldið

Trump er enn frem­ur sakaður um að hafa falsað skjöl í tengsl­um við þagn­ar­gjald sem hann greiddi fyrr­ver­andi klám­stjörn­unni Stor­my Daniels árið 2016. Pen­ing­ana greiddi hann henni til þess að hún myndi ekki upp­ljóstra um ástar­sam­band þeirra.

Með því að greiða Daniels kom Trump í veg fyr­ir yf­ir­vof­andi hneykslis­mál á síðustu vik­um for­setafram­boð hans.

Stormy Daniels.
Stor­my Daniels. AFP

Michael Cohen, lögmaður Trumps, greiddi Daniels 130 þúsund banda­ríkja­dali í októ­ber 2016, eða um 17 millj­ón­ir króna. Er Trump varð for­seti greiddi hann Cohen til baka í nokkr­um greiðslum í gegn­um fyr­ir­tækið sitt.

Sak­sókn­ar­ar telja Trump hafa þannig svikið und­an skatti með því að dul­búa þær sem lög­fræðikostnað. Cohen hef­ur snúið baki við Trump og þykir lík­legt að hann beri vitni gegn hon­um í rétt­ar­höld­un­um.  

Þann 1. mars ákvað ákæru­dóm­stóll á Man­hatt­an að ákæra Trump. Fimm dög­um síðar var gef­in út ákæra sem er í 34 liðum.

Trump gaf sig sjálf­vilj­ug­ur fram fyr­ir dómi. Hann neitaði sök og var í fram­hald­inu lát­inn laus gegn trygg­ingu.

Rétt­ar­höld í mál­inu eiga að hefjast 25. mars árið 2024.

Því er ljóst að næsta ár verður lík­lega ekki ró­legra hjá for­set­an­um fyrr­ver­andi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert