Nöfn tveggja einstaklinga sem létust í gróðureldum á vesturströnd eyjunnar Maui á Havaí, hafa nú verið birt. Aðeins hefur tekist að bera kennsl á fimm lík af þeim 106 sem hafa fundist, en nærri þúsund manns er enn saknað. BBC greinir frá.
Nöfn þeirra Robert Dyckman, 74 ára, og Buddy Jantoc, 79 ára, eru þau einu sem hafa verið birt. Yfirvöld vilja ekki birta nöfn hinna þriggja sem borin hafa verið kennsl á þar sem ekki hefur tekist að hafa samband við aðstandendur þeirra.
Illa hefur gengið að bera kennsl á líkin þar sem þau eru illa farin og ekki eru til DNA-sýni nema af litlum hluta þeirra sem saknað er.
Gróðureldarnir mögnuðust upp á skömmum tíma og hinn sögufrægi bær Lahaina, fuðraði nánast upp á nokkrum klukkutímum.
Sérstakir leitarhundar hafa verið notaðir til að leita að líkum á svæðinu en þeir hafa nú kembt um fjórðung þess. Óttast er að tala látinna kunni að minnsta kosti að tvöfaldast á næstu dögum.
Búast má við að töluverðan tíma taki að ná utan um alla eyðilegginguna en kostnaður við uppbyggingu hefur þó gróflega verið metinn og verður hann gríðarlegur.
Margar hafast nú við í neyðarskýlum og vistir hafa verið fluttar frá öðrum svæðum á eyjunni. Þá hafa yfirvöld fengið á sig gagnrýni fyrir hægagang, sérstaklega hvað varðar stuðning við fólk á hamfarasvæðinu. Það hafi fengið eingreiðslu sem hafi ekki einu sinni dugað fyrir einni nótt á hóteli á Maui.