Forsetahjónin halda til Havaí

Forsetahjónin eru á leið til Havaí í næstu viku.
Forsetahjónin eru á leið til Havaí í næstu viku. AFP/Mandel Ngan

Joe Biden Bandaríkjaforseti og eiginkona hans, Jill Biden, halda í næstu viku til Havaí þar sem þau koma til með að funda með viðbragðsaðilum og íbúum svæðisins, sem og alríkis-, ríkis- og embættismönnum í Maui á mánudag, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu. 

Skógareldarnir hafa kostað meira en 100 manns lífið. 

Þá segir jafnframt að forsetinn ætli sér að tryggja að íbúar á Havaí fái alla þá aðstoð sem þeir þurfa frá bandarískum yfirvöldum á meðan þeir jafna sig eftir hörmungarnar. 

Varar við áframhaldandi eyðileggingu 

Ríkisstjórinn, Josh Green, hefur ítrekað varað við því að áhrif skógareldanna, sem jöfnuðu við jörðu bæinn Lahaina í síðustu viku, eigi eftir að verða mun meiri. Hann hvetur því íbúa Havaí til þess að gera allt sem þeir geta til þess að koma í veg fyrir að eldarnir valdi meiri eyðileggingu, þar sem þeir geta orðið tvöfalt eða þrefalt öflugri en þeir eru nú. 

Biden var fljótur að lýsa yfir náttúruhamförum á Havaí og þar með barst neyðaraðstoð frá alríkisstjórninni. Þá hefur hann jafnframt rætt nokkrum sinnum við Green.

Þrátt fyrir það hefur hann verið gagnrýndur af stjórnarandstöðu repúblikana fyrir huglítil viðbrögð við eldunum. 

Ráðlagt að koma í næstu viku 

Forsetinn minntist á hamfaranna í upphafi ræðu sem hann hélt í Salt Lake City í Utah-ríki, í gær, en hann hefur ekki talað opinberlega um ástandið síðan tala látinna hækkaði um helgina. 

Hvíta húsið segir Biden vera í nánu sambandi við leiðtoga á Havaí og viðbragðsaðila, sem hafa ráðlagt honum að koma ekki í heimsókn fyrr en í næstu viku þegar leitar- og uppbyggingaraðgerðir verða komnar af stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert