Rýmingar vegna gróðurelda á Tenerife

Mynd af gróðureldum á Tenerife í fyrra.
Mynd af gróðureldum á Tenerife í fyrra. AFP

Gróðureldar sem brotist hafa út á Tenerife hafa dreifst á 300 hektara lands. Yfirvöld hafa gripið til þess ráðs að skipa íbúum fimm þorpa að hverfa á braut. Lokað hefur verið fyrir aðgang að skóginum í kringum eldfjallið Teide.

Eldarnir byrjuðu í gærkvöldi og breiddust út um landsvæði sem er skógi vaxið og skorið djúpum gljúfrum. Hefur það flækt slökkvistarf töluvert. Slökkviliðsmenn segja aðgerðir hafi einkum miðast að því að hefta útbreiðslu eldanna og gæta þess að þeir nái ekki til byggðar nær ströndinni.

Þegar eyðilagt 130 hektara lands

Vatni hefur verið sleppt úr tíu þyrlum. 150 slökkviliðsmenn eru á vettvangi auk 50 hermanna. Aðgerðirnar gætu dregist eitthvað á langinn.

Snemma í morgun lá fyrir að eldarnir höfðu eyðilagt um 130 hektara lands, nálagt Teide-fjalli, sem er hæsti tindur Spánar.

Fréttastofa Reuters segir þorpin Arrate, Chivisaya, Media Montaña, Ajafoña og Las Lagunetas verið tæmd. Yfirvöld útiloka ekki að til frekari rýminga verði gripið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert