Danska ríkisstjórnin hyggst leggja fram lagafrumvarp sem bannar brennur á Kóraninum, trúarriti múslima. Svíar eru einnig taldir íhuga bann við brennum trúarrita.
Samkvæmt fréttastofu TV2 telur danska öryggisþjónustan PET ekki ástæðu til að hækka hryðjuverkahættustig í landinu líkt og sænskir frændur þeirra ákváðu í dag.
Yfirmaður sænsku öryggisþjónustunnar, Charlotte von Essen, tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hún hygðist hækka hryðjuverkahættustig landsins úr þremur upp í fjóra, en það telst til alvarlegs hættustigs. Sagði von Essen öryggisþjónustuna hafa komist á snoðir um að Svíþjóð væri skotmark hópa öfgaíslamista.
Mótmæli gegn trúarstefnu Íslam hafa verið haldin víðs vegar í löndunum tveimur þar á meðal fyrir utan hin ýmsu sendiráð. Hefur það sérstaklega vakið athygli og reiði fjölda fólks að mótmælendur hafa tekið upp á því að brenna eintök af Kóraninum.
Aðspurð sagði von Essen að lagafrumvarp um bann við Kóranbrennum, líkt og hjá Dönum, væri til skoðunar en fór ekki frekar út í þá sálma á fundinum.
Löndin tvö eru þekkt fyrir ríka trú á málfrelsi og hafa Kóranbrennur því verið liðnar fram að þessu þrátt fyrir að sumir telji slíka gjörninga flokkast sem hatursglæp eða hatursorðræðu.
Í Danmörku er ekki refsivert að brenna trúarrit á meðan tjáning eða athafnir knúnar af kynþáttafordómum eru refsiverð. Fram til ársins 2017 var það ólögmætt samkvæmt guðlastsákvæðinu að svívirða trúarbrögð en ákvæðið var afnumið af meirihluta á þingi.
Utanríkisráðherra landsins, Lars Løkke Rasmussen, sagði í júlí að lagafrumvarpið yrði unnið innan ramma málfrelsis. Sagði hann mikilvægt að stöðva brennur trúarrita, sérstaklega í ljósi stríðsins í Úkraínu sem sýni mikilvægi þess að eiga sterka bandamenn víðs vegar um heim.
Sagði ráðherrann það ekki í lagi að Danmörk fengi á sig það orðspor að Kóranbrennur væru þar stundaðar í boði ríkisins.