Svíar hækka hryðjuverkahættustig

Charlotte von Essen, yfirmaður sænsku öryggisþjónustunnar, Säpo, lýsti yfir hærra …
Charlotte von Essen, yfirmaður sænsku öryggisþjónustunnar, Säpo, lýsti yfir hærra hryðjuverkahættustigi í Svíþjóð. AFP

Charlotte von Essen, yfirmaður sænsku öryggisþjónustunnar, Säpo, lýsti yfir hærra hryðjuverkahættustigi á blaðamannafundi rétt í þessu. Hættan mælist nú á fjórða af fimm stigum. 

Von Essen segir öryggisþjónustuna hafa komist á snoðir um að Svíþjóð sé skotmark öfga-íslamísta hópa, en að ekki sé um að ræða eitt útilokað atvik sem varð til þess að stofnunin tók ákvörðun um að hækka hættustigið.

Fyrirhugað skotmark

Hættustigið var síðast hækkað árið 2015 og stóð yfir í rúma fjóra mánuði á meðan Säpo eltist við mann sem grunaður var um hryðjuverkaáform í landinu. Von Essen kveðst telja að hættustigið muni vera viðvarandi til lengri tíma. 

Ahn-Za Hagström, yfirmaður matsstofnunar hryðjuverkaógna í Svíþjóð, tók einnig til máls á fundinum og sagði landið ekki lengur aðeins líklegt skotmark hryðjuverkaárása heldur fyrirhugað skotmark.

Tíðar Kóranbrennur í Svíþjóð hafa vakið hafa vakið hörð viðbrögð …
Tíðar Kóranbrennur í Svíþjóð hafa vakið hafa vakið hörð viðbrögð víðs veg­ar um heim­inn. AFP

Kóranbrennur taldar stuðla að ógninni 

Að sögn Hagström hafa nýlegar Kóranbrennur stuðlað að ímynd Svíþjóðar sem fjandsamlegu landi gangvart múslimum og sagði hún að frekari and-múslimiskir gjörningar geti stuðlað að frekari hryðjuverkaógn. 

Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda sendu nýverið hótun til Danmerkur og Svíþjóðar eftir Kóranbrennur sem þar hafa verið stundaðar að undanförnu. Brennur á trúarritinu hafa verið heimilaðar í mótmælaskyni í nafni málfrelsis, en hafa vakið hörð viðbrögð mús­líma og annarra víðs veg­ar um heim­inn og segja margir þær af rasískum og fordómafullum toga. 

Í kjölfarið hafa margir Danir og Svíar fengið dularfull SMS-skilaboð þar sem gert er ákall til allra ungra múslima um að hefna sín á þeim sem standa að baki brenn­um á helgi­bók­inni Kór­an­in­um. 

Hættustigin fimm eru eftirfarandi samkvæmt Säpo: 

  1. Engin ógn: Engin ógn talin steðja að landinu.
  2. Lítil ógn: Líkurnar á því að aðilar hafi ásetning og getu til þess að gera árás eru litlar
  3. Aukin ógn: Líkur á því að aðilar hafi ásetning og getu til að gera árás eru auknar.
  4. Mikil ógn: Líkurnar á því að aðilar hafi ásetning og getu til að gera árás eru miklar. Til að stigi 4. sé náð þarf áþreifanleg ógn að steðja að Svíþjóð.
  5. Mjög mikil ógn: Líkurnar á því að aðilar hafi ásetning og getu til að gera árás eru mjög miklar. Stig fimm krefst þess að áþreifanleg ógn sé yfirvofandi. Stigi fimm hefur ekki verið lýst yfir fram að þessu. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka