Sjö eru látnir og 148 særðir eftir að Rússar skutu flugskeyti á borgina Chernihiv í Úkraínu í morgun. Sex ára gamalt barn lést í árásinni og eru að minnsta kosti 12 börn á meðal þeirra særðu. BBC greinir frá.
Að sögn yfirvalda í Chernihiv voru fórnarlömb árásarinnar á leið til kirkju til þegar flugskeytið hafnaði í miðju borgarinnar. Þá olli það einnig talsverðum skemmdum á háskóla og leikhúsi sem standa við torg í miðbænum.
Chernihiv liggur nálægt landamærum Úkraínu og Hvíta-Rússlands og er 150 kílómeta norðan af Kænugarði. Borgin var hernumin af Rússum í upphafi stríðsins í Úkraínu en síðar endurheimt af Úkraínumönnum.