Fannst myrtur við sumarbústað

Jan Erik Larssen, vinstra megin, kveður Henriksen hafa verið hvers …
Jan Erik Larssen, vinstra megin, kveður Henriksen hafa verið hvers manns hugljúfa og hetju sinnar stéttar. Leið margs ungmennisins hafi legið inn í fagið fyrir áhrif hans. Skjáskot/Hlaðvarpið Livet på veien

Lögreglan í sveitarfélaginu Ringerike, norðvestur af norsku höfuðborginni Ósló, leitar nú til almennings um aðstoð við að upplýsa dauðsfall sem í fyrstu var aðeins talið hafa borið að með grunsamlegum hætti en reynist í kjölfar krufningar vera manndráp.

Snýst málið um Jonas Aarseth Henriksen, þrítugan mann frá Ringerike, sem fannst látinn við sumarbústað í Nes í Ådal á fimmtudaginn.

„Við göngum út frá nokkrum kenningum og höfum fengið fjölda ábendinga,“ segir Tine Henriksen, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Ringerike, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Ég get ekki greint frá því hvaða upplýsingar okkur hafa borist en þar í er margt áhugavert,“ segir ákæruvaldsfulltrúinn enn fremur.

Jonas Aarseth Henriksen frá Hønefoss var atvinnurekandi og áberandi sem …
Jonas Aarseth Henriksen frá Hønefoss var atvinnurekandi og áberandi sem slíkur á TikTok. Af einhverjum ástæðum átti hann undir högg að sækja og nú er vitað að einhver vildi hann feigan. Ljósmynd/Úr einkasafni

Átti undir högg að sækja

Lögregla telur að Jonas Henriksen hafi verið ráðinn bani sama dag og lík hans fannst við sumarbústaðinn. Víg hans virðist hins vegar eiga sér nokkurn aðdraganda.

Henriksen var frá Hønefoss í Ringerike og rak fyrirtækið Henriksen Solutions AS sem boraði vatnsbrunna. Var hann með þó nokkrar vörubifreiðar á sínum snærum og var mjög virkur á samfélagsmiðlinum TikTok undir nafninu Vörubíla-Jónas eða LastebilJonas.

Af einhverjum ástæðum átti hinn myrti víða undir högg að sækja, ítrekað var kveikt í vörubílum hans, að minnsta kosti þrisvar sinnum, eins og hann greindi meðal annars frá á Facebook-síðu sinni, og einu sinni var bensínsprengjum varpað að hjólhýsi sem hann hafði komið fyrir við aðstöðu fyrirtækisins þar sem bifreiðum hans var jafnan lagt.

Brennandi ástríða

Þá er vitað til þess að Henriksen hafi orðið fyrir nokkrum líkamsárásum óþekktra aðila í málum sem aldrei upplýstust. Vinir og samstarfsmenn lýsa Henriksen sem hvers manns hugljúfa sem haft hafi brennandi ástríðu fyrir fagi sínu. „Hann þyrsti í að vera fær í sínu fagi,“ segir Øivind Aksberg sem norska dagblaðið VG ræðir við og Jan Erik Larssen tekur í sama streng við norska ríkisútvarpið NRK.

Larssen þessi rekur hið vinsæla hlaðvarp Livet på veien, Lífið á veginum, og ræðir þar líf atvinnubílstjórans frá ýmsum hliðum en áður stjórnaði hann sjónvarpsþáttunum Broom og Autofil á sjónvarpsstöðinni TV2.

Er Larssen eyðilagður yfir örlögum Henriksens og kveður hann hafa verið hetju. „Hann var ein af stóru hetjunum í vörubílabransanum. Þeir eru margir ungir sem komið hafa inn í stéttina fyrir hans áhrif,“ segir Larssen.

Leitað til vegfarenda

Rannsókn lögreglu hefur ekki leitt til neinnar handtöku nú á fjórða degi eftir líkfundinn og leitar lögregla sem fyrr segir til almennings. Eru ökumenn með mælaborðsmyndavélar, sem leið áttu um þrjá tilgreinda vegi frá mánudegi til fimmtudags, beðnir að koma upptökum úr vélunum til lögreglu og aðrir ökumenn og vegfarendur beðnir að setja sig í samband við lögreglu hafi þeir orðið varir við einhverjar mannaferðir sem telja mætti óvenjulegar eða grunsamlegar.

Eins eru sumarbústaðaeigendur í Ådal beðnir að kanna bústaði sína og hvort við þá eða í þeim sé að finna vegsummerki sem benda til þess að einhver eða einhverjir hafi komið þar við eða jafnvel látið fyrir berast þar.

Henriksen ákæruvaldsfulltrúi staðfestir við NRK að nafni hennar sem myrtur var hafi verið þolandi í nokkrum brotamálum sem lögregla hafði til rannsóknar en um þau vill hún sem minnst segja, aðeins að lögreglan kanni sögu hins myrta og hverja hann hafi umgengist.

Enn sem komið er vill lögregla ekki tjá sig um dánarorsök Henriksens eða hvort, og þá hvers konar, vopnum hafi verið beitt.

NRK

VG

TV2

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert