Réttarhöld eru hafin í máli Daníels Gunnarssonar sem ákærður er fyrir að hafa orðið fyrrum bekkjarsystursinni Katie Phan að bana með hrottalegum hætti í maí 2021. Verði Daníel fundinn sekur um morðið á Phan gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Málið hefur vakið athygli margra fjölmiðla vestanhafs sem greint hafa ítarlega frá réttarhöldunum og fylgjast grannt með gangi mála.
Daníel, sem á íslenskan föður og tékkneska móður, flutti ásamt foreldrum sínum til Ridgecrest í Kaliforníu fyrir nokkrum árum síðan. Að morgni 18. maí 2021 fannst Daníel í bílskúr á heimili stjúpföðurs síns með lík Katie Pham við hlið sér.
Pham var með fjölda stunguáverka á líkama og höfði sem drógu hana til dauða, en talið er að Daníel hafi stungið hana með ísnál.
Þá er honum einnig gefið að sök að hafa snert lík Pham með kynferðislegum hætti og var búið að fletta upp skyrtu hennar og toga buxurnar niður þegar lögregla kom að henni látinni á dýnu á gólfi bílskúrsins.
Að sögn vina Daníels leið honum illa andlega í aðdraganda dauða Pham og reyndi hann að binda enda á líf sitt daginn fyrir morðið með því að keyra á vegg.
Einnig var haft eftir þeim að Daníel, sem átt hafði í stuttu ástarsambandi við Pham, hefði verið í miklu uppnámi eftir að Pham tjáði honum að hún endurgyldi ekki þær tilfinningar sem hann bæri til hennar.
Á meðal þeirra sem borið hefur vitni í réttarhöldunum sem nú standa yfir er fyrrum samfangi Daníels, Nicholas Casteel.
Greindi Casteel þá frá því að Daníel hafi viðurkennt fyrir honum að hafa veitt Pham alvarlega áverka og að hafa veist að henni með ísnál. Auk þess sagði Casteel Daníel ekki hafa sýnt vott af iðrun er hann sagði honum frá gjörðum sínum.
Réttarhöldin yfir Daníel standa enn yfir, en verði hann fundinn sekur af kviðdómi bíður hans lífstíðarfangelsi.