Nýtt bóluefni gegn RS-veirunni

RS-veiran er leiðandi örsök sjúkrahúsinnlagna á meðal ungabarna í Bandaríkjunum
RS-veiran er leiðandi örsök sjúkrahúsinnlagna á meðal ungabarna í Bandaríkjunum mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Bandaríkin urðu í dag fyrst landa til þess að samþykkja bóluefni fyrir barnshafandi konur gegn RS-veirunni. Með tilkomu leyfisins mun konum standa til boða að fá eina sprautu af bóluefninu á milli 32. og 36. viku meðgöngu og á efnið að vernda ungabörn gegn veirunni frá fæðingu til sex mánaða.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem bandaríska lyfjaeftirlitið, FDA, sendi frá sér í dag. AFP greinir frá. 

Veiran hættulegust ungabörnum og öldruðum

Bóluefnið er það nýjasta í röð lyfja sem hafa að undanförnu fengið samþykki til notkunar gegn örverunni algengu, sem er ástæða tugþúsunda sjúkrahúsinnlagna á meðal ungabarna og aldraðra í Bandaríkjunum á hverju ári.

„Þetta samþykki gerir heilbrigðisstarfsfólki og barnshafandi einstaklingum kleift að vernda ungabörn gegn þessum hættulega sjúkdómi,“ segir Peter Marks, forstöðumaður líffræðirannsókna hjá FDA, en RS-veiran er hættulegust ungabörnum og öldruðum.

Leiðandi orsök sjúkrahúsinnlagna ungabarna

Þegar tekin var ákvörðun um að veita bóluefninu samþykki var horft til nýlegrar klínískrar rannsóknar sem gerð var á 7,000 þunguðum konum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á að bóluefnið, sem framleitt er af alþjóðlega lyfjafyrirtækinu Pfiezer, minnkaði alvarleg veikindi í kjölfar veirusýkingarinnar um 82 prósent hjá börnum á aldrinum 0-3 mánaða og um 69 prósent hjá 0-6 mánaða.

RS-veiran er leiðandi örsök sjúkrahúsinnlagna á meðal ungabarna í Bandaríkjunum, en áætlað er að 58.000-80.000 börn yngri en fimm ára þurfi að leggja inn á sjúkrahús vegna sýkingar af völdum veirunnar á hverju ári þar í landi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert