Talið er að Úkraínumönnum hafi tekist að gjöreyðileggja að minnsta kosti eina rússneska sprengjuflugvél af gerðinni Tupolev TU-22M3 á rússneska Soltsy-herflugvellinum nærri borginni Novgorod í norðvesturhluta Rússlands, ekki ýkjalangt frá eistnesku landamærunum.
Staðfesti rússneska varnarmálaráðuneytið á samfélagsmiðlinum Telegram á laugardaginn að árás hefði verið gerð á herflugvöllinn en tjón ekki orðið að ráði. Er fram leið birtu rússneskir hermálabloggarar hins vegar myndir sem sýna brennandi flak sprengjuflugvélar af áðurnefndri gerð.
Þá heyrist því fleygt að um tvær flugvélar gæti hafa verið að ræða sem grandað var á Soltsy-vellinum en meðal þeirra sem greina frá árásinni er bandaríska stríðsrannsóknarstofnunin Institute for the Study of War sem hefur það eftir rússneskum heimildarmönnum að Rússar hafi orðið fyrir tjóni í árásinni.
TU-22M3 eru í grunninn gamlar sprengjuflugvélar sem Rússar hafa uppfært og hafa verið notaðar til að skjóta flugskeytum á úkraínsk skotmörk síðan innrás Rússa hófst.
Álíta greinendur og aðrir sérfróðir það stórsigur fyrir úkraínska herinn að honum hafi auðnast að ráðast á skotmark lengst inni í Rússlandi og granda því. Yfir það dregur meðal annarra úkraínski hermálabloggarinn Júrí Bútúsov ekki fjöður í skrifum sínum á Telegram.
Rússnesku skrifararnir liggja þarlendum hermálayfirvöldum hins vegar á hálsi fyrir að vera værukær og láta sprengjuflugvélar standa óvarðar utan flugskýlis á herflugvöllum landsins. Einn þessara skrifara, sem kallar sig Grey Zone, telur leynilegan úkraínskan andspyrnuhóp hafa gert árásina. Hóp sem starfi innan rússnesku landamæranna og hafi verið í stakk búinn til að senda árásardróna að Soltsy-flugvellinum.