Vita ekki af hverju lyfin virka gegn offitu

Vísindamenn vita ekki af hverju lyf sem stuðla að þyngdartapi …
Vísindamenn vita ekki af hverju lyf sem stuðla að þyngdartapi virka jafn vel og þau gera. AFP/Joel Saget

Ný lyf sem hafa verið þróuð undanfarinn áratug virka vel gegn offitu. Lyf, sem upphaflega voru ætluð sem meðferð við sykursýki af gerð 2, eru nú í mörgum tilvikum notuð til þess að vinna gegn offitu. Vísindamenn og læknar vita þó ekki nákvæmlega af hverju lyfin virka svo vel en lyfjafyrirtæki gáfust upp á því fyrir mörgum áratugum að reyna að þróa lyf sem vinna gegn offitu.

Var gengið út frá því að of feitir einstaklingar hefðu ekki viljastyrkinn til að léttast frekar en að offita væri langvinnur efnaskiptasjúkdómur. Annað hefur hins vegar komið á daginn og er offita nú skilgreind sem sjúkdómur. Til eru lyf sem hjálpa fólki að grennast.

Umrædd lyf voru þó ekki upphaflega hönnuð í þeim tilgangi. Fjallað var um þróun slíkra lyfja í New York Times í síðustu viku. Þar var bent á að önnur lyf á síðustu áratugum hafi verið þróuð í gegnum rökrétta ferla og með skýrt markmið að leiðarljósi. Þar á meðal lyf sem hægir á framþróun Alzheimer-sjúkdómsins, lyf við sykursýki og fleira.

Langtímaáhrifin ókunn

Nú hafa vísindamenn óvart þróað lyf sem hefur áhrif á náttúrulega hormóna og valda þyngdartapi. Hvorki er vitað af hverju lyfin stuðla að þyngdartapi né hver langtímaáhrifin eru á sjúklinga sem taka þau að staðaldri.

„Allir myndu ætla að það hljóti að vera rökrétt skýring eða regla sem gefur til kynna hvað á eftir að virka. En staðan er ekki sú núna,“ segir dr. David D’Alessio, sérfræðingur í efnaskipta- og innkirtlalækningum við Yale-háskóla í samtali við New York Times. Lyf á borð við Ozempic og Saxenda, sem meðal annarra sykursýkislyfja er á markaði hérlendis, þarf að taka vikulega til að þau virki. Þegar sjúklingurinn hættir að taka inn lyfin þyngist hann aftur um þau kíló sem hann hafði misst á meðan hann tók lyfin.

Dr. Susan Yanovski, einn af framkvæmdastjórum yfir rannsóknum á offitu við bandarísku sykursýkis-, meltingarfæra- og nýrnamiðstöðina, hefur áhyggjur af því að sjúklingar verði að vera á lyfinu alla ævi, vilji þeir halda aukakílóunum í skefjum.

Hún bendir á að nauðsynlegt sé að læknar fylgist vel með því hvaða langtímaáhrif slík lyf hafa á sjúklinga.

Offiitu fylgja auknar líkur á margvíslegum fylgisjúkdómum, svo sem sykursýki, lifrarsjúkdómum, hjartasjúkdómum, krabbameini, svefnvandamálum og liðverkjum.

Aðaláhrifin skipti mestu máli

„Það verður að hafa í huga þessa alvarlegu sjúkdóma sem fylgja offitu og einnig skemmri lífslíkur,“ segir Yanovski. Lyf sem núna eru notuð gegn offitu hafa líka margvíslegar aukaverkanir. Þeirra á meðal eru ógleði og niðurgangur. En aðaláhrifin eru þau sem skipta máli.

Sjúklingar segja frá því að þráhyggju fyrir mat linni. Þeir þurfa minna magn af mat og þeir léttast því þeir borða minna, ekki af því þeir brenna fleiri hitaeiningum.

Niðurstöður lyfjarannsókna sem kynntar voru fyrr í ágúst gefa til kynna að nýtt lyf, Wegovy, hafi víðtækari áhrif en að hjálpa sjúklingum að léttast. Það verndar þá einnig fyrir því að þróa með sér hjartasjúkdóma og minnkar líkur á hjartaáfalli eða heilablóðfalli.

Vísindamenn skilja þó ekki að fullu af hverju þessi lyf hafa þessi áhrif á sjúklinga. Lyf á borð við Ozempix og Saxenda hafa ekki verið lengi á markaði. Enn er verið að kortleggja aukaverkanir þessara lyfja.

Aukaverkanir kannaðar betur

Í sumar var greint frá því að vísbendingar væru um að lyfin gætu valdið sjálfskaðahugsunum og aukinni sjálfsvígshættu hjá sjúklingum. Lyfjastofnun Evrópu athugar nú þessi mögulegu tengsl en Lyfjastofnun Íslands sendi inn ábendingu þessa efnis.

Alls komu upp þrjú slík tilfelli hérlendis í sumar. Í tveimur tilfellum upplifðu sjúklingarnir sjálfsvígshugsanir. Annar var á Saxenda og hinn á Ozempic. Í þriðja tilfellinu upplifði sjúklingurinn sjálfskaðahugsanir og var hann á Saxenda.

Í viðtali við mbl.is fyrr í sumar sagði forstjóri Lyfjastofnunar að um 170 ábendingar hefðu borist Lyfjastofnun Evrópu um þessar mögulegu aukaverkanir.

„Ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengi og það er það sem þarf að gera. Til þess þarf miklu stærra þýði en við erum með,“ sagði Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands.

Hún sagði að 170 tilkynningar væru ekki margar miðað við þann fjölda sem er á lyfinu í allri Evrópu. Aðrar þekktar aukaverkanir lyfjanna eru meltingartruflanir.

Í Evrópu vofir nú yfir skortur á lyfinu Ozempic og gerir Lyfjastofnun ráð fyrir að skorturinn vari út árið á Íslandi. Um sjö þúsund Íslendingar eru á Ozempic.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert