Handtekinn eftir 15 ára útlegð

Thaksin Shinawatra, sem er 74 ára gamall, heilsaði stuðningsmönnum sínum …
Thaksin Shinawatra, sem er 74 ára gamall, heilsaði stuðningsmönnum sínum stuttlega á flugvellinum. AFP/Manan Vatsyayana

Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, sneri aftur til síns heimalands í dag eftir 15 ár sjálfskipaða útlegð. Við komuna til landsins var hann handtekinn. 

Stuðningsmenn Shinawatra tóku á móti honum á flugvelli í Bangkok. 

Shinawatra, sem er 74 ára gamall, heilsaði stuðningsmönnum sínum stuttlega og hneigði sig við mynd af Maha Vajiralongkorn konungi.

Shinawatra sýndi Maha Vajiralongkorn konungi virðingu á flugvellinum.
Shinawatra sýndi Maha Vajiralongkorn konungi virðingu á flugvellinum. AFP/Manan Vatsyayana

Hann var síðan fluttur í hæstarétt Taílands þar sem hann var dæmdur í átta ára fangelsi vegna þriggja ákæra sem voru lagðar fram á hendur honum er hann var í útlegðinni. Ein tengist fyrirtæki hans, önnur tengist bankaláni og sú þriðja lottói. 

Óljóst er hins vegar hversu lengi Shinawatra mun sitja í fangelsi og telja margir að hann hafi komist að einhverju samkomulagi sem muni stytta fangelsisvist hans til muna. 

Stuðningsmenn Shinawatra.
Stuðningsmenn Shinawatra. AFP/Manan Vatsyayana

Nýr forsætisráðherra í dag 

Í dag er gert ráð fyrir að viðskiptajöfurinn Srettha Thavisin taki formlega við embætti forsætisráðherra. Thavisin er formaður Pheu Thai-flokksins sem er nýjasti holdgervingur stjórnmálahreyfingar Shinawatra.

Srettha Thavisin, formaður Pheu Thai-flokksins.
Srettha Thavisin, formaður Pheu Thai-flokksins. AFP/Manan Vatsyayana

„Velkominn aftur til Taílands pabbi. Faðir minn kom heilu og höldnu til Taílands og hefur nú lögfræðiferli,“ sagði í færslu Paetongtarn, dóttur Shinawatra, á Instagram og birti hún mynd af fjölskyldunni á flugvellinum. 

Shinawatra hefur áður sagt að hann sé viljugur til þess að snúa aftur til síns heima til þess að hitta barnabörn sín. Hann hefur haldið því fram að ákærurnar á hendur honum séu í pólitískum tilgangi.

Shinawatra var steypt af stóli í valdaráni árið 2006 og flúði frá Taílandi árið 2008 vegna yfirvofandi fangelsisdóms fyrir valdamisnotkun.

Umdeildur og áhrifamikill

Hann er einn umdeildasti og áhrifamesti stjórnmálamaður Taílands.  

Stjórnmálaflokkar sem tengjast Shinawatra hafa verið við völd í Taílandi frá árinu 2001, þar til í ár er framsóknarflokkur Taílands hlaut mest fylgi. 

Það reyndist hins vegar erfitt fyrir flokkinn að mynda ríkisstjórn í ljósi þess að efri deild þingsins hafnaði ítrekað tilnefningu ráðherraefnis þeirra.

Á mánudag samdi Pheu Thai-flokkurinn, sem hlaut næstmest fylgi í kosningunum, um stjórnarsamstarf við herstjórnarflokka sem hafa verið í meirihluta þingsins fram að síðustu kosningunum í maí. 

Efri deild þingsins greiðir atkvæði í dag um tilnefningu Srettha Thavisin til forsætisráðherraefnis.  

Shinawatra er einn umdeildasti og áhrifamesti stjórnmálamaður Taílands nútímans.
Shinawatra er einn umdeildasti og áhrifamesti stjórnmálamaður Taílands nútímans. AFP/Lillian Suwanrumpha
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert