Prigósjín segist mættur til Afríku

Enn á eftir að sannreyna myndbandið en hefur því verið …
Enn á eftir að sannreyna myndbandið en hefur því verið dreift víða á samfélagsmiðlum. AFP

Jevgení Prigósjín, leiðtogi Wagner-málaliðahópsins sendi í gær frá sér myndband, þar sem hann sagðist vera kominn til Afríku. Sagðist hann safna liði til þess að berjast fyrir frelsi Afríkumanna.

Í myndbandinu má sjá Prigó­sjín standa í eyðimörk, íklæddan herklæðum og með riffil í hendi.

Af orðum hans að dæma er hann staddur í Afríku ásamt Wagner-liðum, þó segir hann ekki nákvæmlega hvar í heimsálfunni hann sé staddur. Er þetta fyrsta myndskeiðið sem birst hefur af Prígósjín frá uppreisn Wagner-málaliða í Rússlandi í júní. 

Breska dagblaðið The Telegraph greinir frá því að enn eigi eftir að staðfesta hvort myndbandið sé ósvikið, en birtir myndbandið á YouTube-rás sinni.

Segjast gera líf Isis að martröð

„Hitastigið er yfir 50, eins og við viljum hafa það. Wagner-málaliðahópurinn eykur mátt Rússlands í öllum heimsálfum og [gerir] Afríku enn frjálsari,“ segir Prígósjín í myndskeiðinu.

„Réttlæti og hamingju fyrir afríska fólkið. Við erum að gera líf Isis og al-Qaeda og annarra ræningja að martröð.“

Segir hann málaliðahópinn nú safna liði. Myndbandinu fylgir símanúmer fyrir þá sem vilja ganga til liðs við málaliðana en myndskeiðinu hefur verið deilt víða á samfélagsmiðlinum Telegram.

Staðsetning Prigósjíns lengi hulin

Mikil leynd hefur hvílt yfir staðsetningu Prigósjíns síðan hann reyndi að fremja valdarán í heimalandi sínu í júní, sem síðan rann út í sandinn eftir sólarhring.

Úkraínskir landamæraverðir sögðu í júlí að málaliðarnir væru komnir til Hvíta-Rússlands og myndir af Prigósjín hafa verið í dreifingu þar sem hann sést ræða við opinbera starfsmenn Suður-Afríku– myndir sem á þó enn eftir að sannreyna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert