Jakob Ellemann-Jensen, varnarmálaráðherra og varaforsætisráðherra Danmerkur, mun skipta á ráðherrasæti við Troels Lund Poulsen, fjármálaráðherra og flokksbróður hans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneyti Danmerkur í morgun.
Samkvæmt danska ríkisútvarpinu kölluðu ráðherrarnir tveir til blaðamannafundar í kjölfarið og útskýrðu ástæður skiptanna. Sagði Ellemann margslungin verkefni varnarmálaráðuneytisins, svo sem stríðið í Úkraínu, milljarðafjárfestingar á hergögnum og hneyksli innann ráðuneytisins, vera ástæðu fyrir breytingunum.
Verkefnin krefjist að hans sögn ráðherra sem geti einbeitt sér algjörlega að þeim, en ekki ráðherra sem einnig gegnir formennsku flokksins og sé ný snúin aftur úr veikindaleyfi.
Ellemann snéri aftur úr veikindaleyfi fyrr í mánuðinum, en ráðherrann var frá i sex mánuði vegna kulnunar í starfi.
Blaðamenn á fundinum spurðu ráðherrann í kjölfarið hvort hann væri á hlaupum undan ábyrgð, vegna hneykslismála í varnarmálum, nú síðast vegna kaupa á hergögnum frá ísraelska herfyrirtækinu Elbit fyrir 1.7 milljarða.
Ellemann tjáði fjármálanefnd danska þingsins í janúar að þau hefðu aðeins stuttan tíma til að ráðfæra sig og úrskurða um kaupinn á vopnunum, þar sem tilboð Elbit myndi renna út í lok janúar. Í maí á þessu ári kom hins vegar á daginn að tilboðið myndi fyrst renna út í júní og beið málið því Ellemann er hann snéri aftur úr veikindaleyfi.
Við spurningu blaðamanns kvaðst Elleman alls ekki hlaupast undan ábyrgð, en að hann viðurkenni að verkefni ráðuneytisins séu stór og því hafi hann falið Poulsen verkið.