„Ég er stór strákur“

AFP/Jeff Kowalsky

Rudy Giuliani, fyrrverandi lögmaður Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta, gefur lítið fyrir þær ákærur sem hann á yfir höfði sér í Georgíuríki.

Giuliani er einn af þeim 19 sem ákærðir eru fyrir að hafa reynt að snúa við úrslitum forsetakosninganna árið 2020. Trump er einnig meðal þeirra ákærðu en ráð er gert fyrir að hann gefi sig fram við lögreglu á morgun, fimmtudag. 

„Ég er stór strákur. Ég ræð við þetta. Ég hef barist í bardögum sem eru verri en þessi,“ sagði Giuliani við fjölmiðla fyrir utan heimili sitt í New York í dag. 

Giuliani er kominn til Atlanta í Georgíu til að gefa sig fram við lögreglu.

Á löngum ferli sínum hefur Giuliani einnig sinnt embætti alríkissaksóknara og var hann borgarstjóri New York-borgar frá 1994 til 2001. 

Rudy Giuliani var um tíma lögmaður Donald Trump.
Rudy Giuliani var um tíma lögmaður Donald Trump. AFP/Jim Watson

Hlær að myndatökunni

„Það er ekki tilviljun að það sé búið að ákæra alla lögmennina hans. Ég hef aldrei heyrt um það í Bandaríkjunum,“ sagði Giuliani um málareksturinn í Georgíuríki. 

Hann gerði grín að þeim orðrómi að tekin verði af honum, sem og Trump, sakborningsmynd (e. mugshot). „Þeir eru að fara lítilsvirða sig með því að taka myndir af mér,“ sagði borgarstjórinn fyrrverandi. 

„Ég er sami Rudolhp Giuliani sem sigraðist á mafíunni í, sá hinn sami og gerði New York-borg að öruggustu borg í Bandaríkjunum,“ sagði hann. 

Auk þeirra Giuiliani og Trump er Mark Meadows einnig ákærður, en hann var starfsmannastjóri Trump í Hvíta húsinu. Fleiri lögmenn Trump eru einnig ákærðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka