Norðmenn opna flotmyllugarð

Støre og krónprinsinn í þyrlu á leið út á Gullfaks …
Støre og krónprinsinn í þyrlu á leið út á Gullfaks C-pallinn þar sem þeir opnuðu vindmyllugarðinn formlega en hann tók til starfa í nóvember. AFP/Ole Berg-Rusten

Norðmenn opnuðu í dag formlega stærsta fljótandi vindmyllugarð Norðursjávarins, Hywind Tampen-garðinn svokallaða, sem mun sjá olíubor- og vinnslupöllum á Gullfaks- og Snorre-vinnslusvæðunum fyrir 35 prósentum þeirrar raforku sem þeir þarfnast árlega.

Það voru þeir Hákon krónprins og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra sem opnuðu garðinn frá vinnslupallinum Gullfaks C í morgun sem er um tíu kílómetra frá vindmyllunum ellefu sem eru 150 metrar að hæð og framleiða til samans 88 megavött árlega.

Rafmagnsframleiðslan er þó ekki að hefjast nú þar sem garðurinn, sem er um 140 kílómetra frá landi, var tekinn í notkun í nóvember í fyrra. „Við stöndum nú í orkupunkti Noregs miðjum, hafi, vindi, sól og gasi. Þetta er stór dagur,“ sagði Støre við opnunina, „olía og gas hafa séð heimsbyggðinni fyrir orku og átt sinn þátt í því að gera Noreg að farsælu samfélagi. Nú hefjum við ritun nýs kafla orkusögunnar.“

„Já, þetta kostar peninga“

Kom ráðherra enn fremur inn á stríðið í Úkraínu sem valdið hefði straumhvörfum í orkumálum gervallrar álfunnar og lét þess enn fremur getið að endurnýjanlegir orkugjafar yrðu að vera uppistaða rafmagnsframleiðslu ætlaði Noregur sér að ná loftslagsmarkmiðum sínum.

Ráðherrann og prinsinn rétt fyrir brottför frá Flesland-flugvellinum í Bergen …
Ráðherrann og prinsinn rétt fyrir brottför frá Flesland-flugvellinum í Bergen í morgun. AFP/Ole Berg-Rusten

Myllurnar í Hywind-Tampen-garðinum eru sem fyrr segir fljótandi. Þar með standa þær ekki á hafsbotni heldur á fleka sem festur er við hafsbotninn með þungum akkerum. Er þar með unnt að virkja myllurnar á mun dýpri sjó en ella og þar með lengra úti á hafi þar sem vindasamara er en við ströndina.

Kostnaðurinn við framkvæmdina var 7,4 milljarðar norskra króna, jafnvirði tæplega 100 milljarða íslenskra króna. „Já, þetta kostar peninga, en einhver verður að vera í broddi fylkingar,“ sagði Størevið opnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert