Sagðist ætla að gera „tíkurnar að þrælum“

Andrew og Tristan Tate segja engan fót fyrir ásökunum lögreglu …
Andrew og Tristan Tate segja engan fót fyrir ásökunum lögreglu í Rúmeníu. AFP/Daniel Mihailescu

Ítarleg stafræn sönnunargögn í máli bræðranna Andrew og Tristan Tate leiða líkum að því að bræðurnir, ásamt tveimur konum, hafi starfrækt mansalshring þar sem konur voru neyddar til að framleiða klám.

Um er að ræða bæði myndbönd og hljóðupptökur sem saksóknari í Rúmeníu hefur aflað. 

BBC hefur séð hluta sönnunargagnanna.

Tate-bræðurnir eru ákærðir fyrir mansal í Rúmeníu og fyrir að hafa stofnað mansalshring með tveimur konum. 

Í afriti af einni hljóðupptökunni virðist sem svo að Tristan hafi sagt að hann myndi „gera tíkurnar að þrælum“. 

Þá sakar eitt vitni mennina um að hafa beitt sig svo harkalegu ofbeldi að hún slasaðist á auga og brjóstum. 

Bræðurnir hafa neitað öllum ásökunum.

Í sumum tilvikum sönnunargagnanna voru þau upphaflega á ensku og síðar þýdd á rúmensku. BBC þýddi svo hluta þeirra aftur yfir á ensku, en ríkisútvarpið segist ekki geta tryggt að skilaboðin, sem ákærðu sendu sín á milli, séu nákvæmlega þau sömu og þau voru upprunalega.

Seldu klám á PornHub og OnlyFans

Saksóknari leiðir líkum að því í gögnunum að Tate-bræðurnir hafi hagnast fjárhagslega á mansali í gegnum OnlyFans-reikning sem skráður var á Georginu Naghel, sem er önnur kvennanna sem ákærð er í málinu.

Hún hafi greitt konunum upphæð í hverjum mánuði fyrir framleiðslu klámmyndbanda, en ekki upplýst þær um hver heildartekjur rásarinnar hafi verið. Þannig hafi þær orðið af miklum tekjum.

Vitni í málinu segja Tate-bræðurnar hafa hótað sér og beitt ofbeldi svo þær myndu framleiða klám fyrir rásina. Í gögnum málsins er afrit af því þegar Tristan Tate virðist segja að hann vilji ekki að konurnar hefðu sjálfar aðgang að reikninum á klámsíðum á borð við PornHub og OnlyFans. 

„Ég vil ekki að þær hafi lykilorðin, ég vil ekki að þær hafi neitt,“ segir að Tristan Tate hafi sagt í talskilaboðum. „Aðallega ætla ég að gera þessar tíkur að þrælum. [...] Ég ætla að láta þær vinna meira og meira og meira. Ég læt þessar tíkur vinna eins og þræla. Þrælavinnu. Tíu til tólf klukkustundir á dag,“ er hann sagður hafa sagt í talskilaboðum. 

Hafi leitt konurnar í gildru

Fyrr í sumar gaf saksóknari í Rúmeníu það upp að hann telji mennina hafa afvegaleitt konur með því að sýna þeim rómantískan áhuga. Þannig hafi þeir leitt þær í gildru á heimili sínu og neytt þær svo í að framleiða klám með hótunum og ofbeldi.

Bræðurn­ir voru hand­tekn­ir í Rúm­en­íu þann 30. des­em­ber. Var þeim sleppt úr stofuhaldi í upphafi ágústmánaðar en þeir mega þó aðeins ferðast um borgina Búkarest og í kringum heimili sitt sem er skammt frá borginni.

Andrew Tate er vel þekkt­ur á sam­fé­lags­miðlum og hef­ur verið bannaður á þeim mörg­um en hann hef­ur gjarn­an deilt skoðunum þykja sem ein­kenn­ast af kven­h­atri og eitraðri karl­mennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert