Trump kominn í Fulton-fangelsið

Trump stígur hér úr vél sinni í Atlanta fyrr í …
Trump stígur hér úr vél sinni í Atlanta fyrr í kvöld. AFP/Joe Raedle

Donald Trump er kominn til Atlanta í Georgíu­ríki Banda­ríkj­anna til að gefa sig fram til lögreglu í Atlanta. Er búið að handtaka hann í fjórða sinn, og hafa fang­els­is­mála­yf­ir­völd gefið það út að tek­in verði af hon­um fingra­för og sakborningsmynd smellt af hon­um, áður en Trump gefst kostur til að lýsa sig sekan eða saklausan af þeim sakargiftum sem bornar hafa verið á hann.

Trump yfirgaf Bedminister golfklúbbinn sinn í New Jersey-ríki fyrr í kvöld en hann sagði fyrr í kvöld að hann yrði hand­tek­inn í Fulton-fang­els­inu í Atlanta kl. 19:30 að staðartíma, eða um kl. 23:30 að íslenskum tíma. Verður hann í kjölfarið látinn laus gegn trygg­ingu sem dóm­ari hef­ur ákveðið að nemi 200.000 bandaríkjadölum, eða sem nemur rúmum 26,4 milljónum íslenskra króna.  

Gert er ráð fyrir mótmælendum frá bæði stuðningsmönnum og andstæðingum …
Gert er ráð fyrir mótmælendum frá bæði stuðningsmönnum og andstæðingum Trumps fyrir utan Fulton-fangelsið í kvöld. AFP/Christian Monterrosa

Þetta er fjórða ákær­an sem Trump yfir höfði sér en í Georgíu­ríki er hann ákærður, ásamt 18 öðrum, fyr­ir að hafa reynt að snúa við úr­slit­um for­seta­kosn­ing­anna 2020. Trump hef­ur einnig verið ákærður í Flórída-ríki, New York-ríki og í Washington-borg. Þegar allir ákæruliðir í ákærunum fjórum eru lagðir saman eru þeir 91 talsins.

Reyna að komast hjá sakborningsmyndatöku

Fógetinn í Fulton-sýslu hefur gefið það út að ekki verði komið fram við Trump á annan hátt en aðra sakborninga og því er fastlega gert ráð fyrir því að tekin verði sakborningsmynd (e. mugshot) af Trump.

Samkvæmt heimildum CNN þá vinna þó lögmenn forsetans fyrrverandi hörðum höndum að því að komist verði hjá því. Aðrir sakborningar viðriðnir málið hafa þó verið teknir í slíka myndatöku.

Fjöldi fólks hef­ur þegar safn­ast sam­an fyr­ir utan Fulton-fang­elsið og er hægt að fylgjast með framvindu mála í beinu streymi hér:

Uppfært kl. 1: Fógetaembættið var að senda frá sér sakborningsmyndina af Trump.

Sakborningsmyndin af Trump.
Sakborningsmyndin af Trump. AFP/Fógetaembætti Fulton-sýslu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert