Íslensk kona varð fyrir stunguárás í Ósló

Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Íslensk kona varð fyrir stunguárás í Ósló í gær. Ingunn Björnsdóttir er dósent í lyfjafræði við Óslóarháskóla en hún og samkennari hennar urðu fyrir árásinni af hendi nemanda þeirra við skólann.

Sá er á þrítugsaldri. NRK greinir frá en DV fjallaði fyrstur íslenskra miðla um málið.

Yfirbugaður á vettvangi

Árásarmaðurinn var yfirbugaður af nemendum og starfsfólki á vettvangi en síðar handtekinn, að því er fram kemur  í umfjöllun NRK. Verjandi hans segir hann alfarið neita sök.

Ingunn hlaut stunguáverka sem og samkennari hennar en lögregla fann tvo hnífa á vettvangi. Rannsókn málsins er í fullum gangi.

Haft er eftir lögreglu í Ósló í tilkynningu að árásarmanninum bíði frekari yfirheyrsla. Áfallahjálp hefur verið boðin bæði starfsfólki og nemendum Óslóarháskóla.

Svein Stølen rektor segir málið alvarlegt og sorglegt. Segir hann að nú verði reynt að hlúa að öllum sem stuðningi þurfa á að halda.

Ingunn hefur birt mynd af sér á spítala í Ósló á samfélagsmiðlum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert