Rýfur þögnina á X eftir tveggja ára útlegð

Trump hefur sagt miðilinn hafa átt stóran þátt í kosningasigri …
Trump hefur sagt miðilinn hafa átt stóran þátt í kosningasigri hans árið 2016. Samsett mynd

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur rofið þögnina á samfélagsmiðlinum X, betur þekktum sem Twitter.

Reikningi Trumps á miðlinum var lokað fyrir fullt og allt í kjölfar óeirðanna á Capitol Hill árið 2021 og hefur hann ekki birt færslu þar síðan. 

Trump öðlaðist óvænt aðgang að reikningi sínum að nýju eftir að auðkýfingurinn Elon Musk keypti miðilinn, en Musk efndi til skoðanakönnunar um áhuga á endurkomu Trump.

„Aldrei gefast upp“

Trump virðist hafa viljað fresta endurkomu sinni og hefur hingað til notast við eigin samfélagsmiðil, Truth Social, í stað X.

Forsetanum fyrrverandi virðist þó hafa snúist hugur í kjölfar handtöku hans í Georgíu í gær en hann birti sakborningsmynd sína á miðlinum í dag. Fyrir neðan myndina stóð með hástöfum: „Kosningaafskipti“ og „Aldrei gefast upp“ ásamt hlekk að vefsíðu hans. 

Sakborningurinn ferðaðist til Atlanta í Georgíu-ríki í gær og gaf sig fram við lögreglu vegna ákæru sem lögð var fram á hendur honum fyr­ir að hafa reynt að snúa við úr­slit­um for­seta­kosn­ing­anna 2020. 

Trump hef­ur einnig verið ákærður í Flórída-ríki, New York-ríki og í Washingt­on-ríki. 

Trump notaðist að miklu leyti við Twitter til að ná til fylgjenda sinna og hefur sjálfur sagt það eina af lykilástæðunum fyrir því að hann náði kjöri í kosningunum 2016.

Trump hyggst gefa kost á sér sem forsetaefni repúblikana í kosningunum 2024 og hefur þegar verið spáð góðu gengi í kjörinu, en líklegt er að réttarhöld yfir honum muni fara fram á sama tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert